Innlent

Mest fór til Sýrlands

Benedikt Bóas skrifar
Vaxandi vandi er í málefnum flóttamanna í Sýrlandi.
Vaxandi vandi er í málefnum flóttamanna í Sýrlandi. vísir/getty
Á árinu 2016 námu heildar­framlög Íslands til mann­úðar­aðstoðar um 770 milljónum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Þar af voru 500 milljónir króna af sérstöku framlagi sem samþykkt var í ríkisstjórn haustið 2015 og síðar í fjárlögum á Alþingi 2016 um að verja allt að einum milljarði króna til að bregðast við vaxandi vanda í málefnum flóttamanna í kjölfar átakanna í Sýrlandi.

Framlögin til mannúðaraðstoðar skiptast á milli borgarasamtaka, 175 milljónir króna, og alþjóðastofnana, 595 milljónir króna.

Utanríkisráðuneytið veitir árlega styrki til íslenskra borgarasamtaka sem starfa á sviði mannúðar­aðstoðar. Íslensk stjórnvöld reiða sig meðal annars á borgarasamtök til að koma mannúðaraðstoð sinni til skila og er styrkjum vegna mann­úðar­aðstoðar ætlað að svara alþjóðlegum neyðarköllum allt árið um kring.

Í júní voru tæpar 90 milljónir króna veittar sérstaklega til sex verkefna til að bregðast m.a. við flóttamannastraumnum sem átökin í Sýrlandi hafa leitt af sér og í Eþíópíu og Malaví.

Á árinu fór stærstur hluti af framlögum í mannúðaraðstoð vegna afleiðinga átakanna í Sýrlandi. Einnig voru veitt framlög vegna jarðskjálftans í Ekvador og fellibylsins sem gekk yfir Haítí.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×