Fótbolti

Messi missir af leiknum gegn Þýskalandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Messi á ferðinni í úrslitaleik HM.
Messi á ferðinni í úrslitaleik HM. Vísir/Getty
Lionel Messi verður ekki með argentínska landsliðinu þegar það mætir því þýska í vináttulandsleik í Düsseldorf á morgun vegna meiðsla, en þessi sömu lið mættust í úrslitaleik HM í júlí. Þar höfðu Þjóðverjar betur eftir framlengdan leik, en Mario Götze skoraði eina mark leiksins á 113. mínútu.

Messi, sem er fyrirliði argentínska landsliðsins, meiddist í leik Barcelona og Villarreal á sunnudaginn og samkvæmt argentínska knattspyrnusambandindu verður ekki tekin áhætta með framherjann sem var valinn besti leikmaður HM í Brasilíu.

Þetta verður fyrsti leikur Argentínu undir stjórn Gerardo Martino, sem tók við liðinu af Alejandro Sabella eftir HM. Martino hefur kallað tvo leikmenn inn í landsliðshópinn í stað Messi: Nicolas Gaitan, leikmann Benfica, og Tottenham-manninn Erik Lamela.

Ezequiel Garay, Maxi Rodriguez og Rodrigo Palacio missa einnig af leiknum gegn Þýskalandi vegna meiðsla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×