Fótbolti

Messi magnaður í 6-1 sigri Argentínu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Argentína komst auðveldlega í úrslitaleik Suður-Ameríkukeppninnar í fótbolta í nótt með því að bursta Paragvæ, 6-1, í seinni undanúrslitaleiknum sem fram fór í Concepcion í Síle.

Marcos Rojo, varnarmaður Manchester United, hóf veisluna með marki á 15. mínútu og Javier Pastore kom Argentínu í 2-0 á 27. mínútu.

Lucas Barrios minnkaði muninn fyrir Paragvæ á markamínútunni, þeirri 43., og liðið enn inn í leiknum aðeins 2-1 undir í hálfleik.

En í síðari hálfleiknum opnuðust allar flóðgáttir. Ángel di María, annar leikmaður Manchester United, skoraði tvö mörk á sex mínútna kafla á 47. og 53. mínútu og kom Argentínu í 4-1.

Sergio Agüero, framherji Manchester City, kom Argentínu í 5-1 á 80. mínútu áður en Napoli-maðurinn Gonzalo Higuaín innsiglaði stórsigur Argentínu, 6-1, á 83. mínútu.

Lionel Messi gengur ekkert að skora fyrir argentínska landsliðið úr opnum leik, en rúmt ár er síðan hann kom boltanum síðast í netið í mótsleik án þess að skora úr vítaspyrnu. Það var gegn Nígeríu á HM í fyrra.

Messi var þó gjörsamlega stórkostlegur í nótt. Hann lagði upp þrjú mörk fyrir samherja sína og átti einnig þátt í hinum þremur. Allt það helsta úr leiknum má sjá hér að ofan.

Argentína mætir heimamönnum í Síle í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×