Fótbolti

Messi fylgdi eftir eigin víti og tryggði Barcelona sigur á meisturunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi tryggði Börsungum sigurinn.
Lionel Messi tryggði Börsungum sigurinn. vísir/getty
Barcelona vann Spánarmeistara Atlético Madrid, 1-0, í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum spænska Konungsbikarsins í knattspyrnu í kvöld.

Lionel Messi skoraði eina markið á 85. mínútu þegar allt stefndi í markalaust jafntefli og Börsungar fara því með eins marks forystu á Vicente Calderón í seinni leikinn.

Jafnræði var með liðunum framan af, en undir lokin fóru heimamenn að pressa stíft og uppskáru vítaspyrnu þegar Sergio Busquets féll í teignum í baráttu við Juanfran.

Lionel Messi fór á punktinn og lét Jan Oblak verja frá sér en Argentínumaðurinn náði frákastinu sjálfur og skoraði auðveldlega í autt markið.

Messi er nú búinn að brenna af síðustu fjórum af sjö vítaspyrnum sínum í öllum keppnum fyrir Barcelona og argentínska landsliðið.

Liðin mætast aftur eftir viku á heimavelli Spánarmeistaranna í Madríd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×