Fótbolti

Messi búinn að jafna markamet Batistuta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Markvarðahrellarnir Messi og Batistuta.
Markvarðahrellarnir Messi og Batistuta. vísir/getty
Lionel Messi skoraði sitt 54. mark fyrir argentínska landsliðið í 4-1 sigri á Venesúela í 8-liða úrslitum Copa América, Suður-Ameríkukeppninnar í gær.

Messi kom Argentínu í 3-0 á 60. mínútu þegar hann skoraði af stuttu færi eftir sendingu Nicolás Gaitán. Markið má sjá í myndbandinu hér fyrir neðan.

Messi hefur nú jafnað markamet Gabierls Batistuta fyrir argentínska landsliðið en sá síðarnefndi skoraði 54 mörk í 77 landsleikjum á árunum 1991-2002.

Messi mun væntanlega bæta markametið á næstunni en Argentína á tvo leiki eftir í Copa América. Messi og félagar mæta Bandaríkjunum í undanúrslitum aðfaranótt miðvikudags og spila svo annað hvort leikinn um 3. sætið á laugardaginn eða sjálfan úrslitaleikinn á sunnudaginn.

Messi er kominn með fjögur mörk í Copa América í ár en Barcelona-maðurinn skoraði þrennu eftir hafa komið inn á sem varamaður gegn Panama í riðlakeppninni.

Messi, sem verður 29 ára á föstudaginn, skoraði sitt fyrsta mark fyrir Argentínu í vináttulandsleik gegn Króatíu 1. mars 2006.

Þrátt fyrir mörkin 54 á Messi enn eftir að vinna stórmót með argentínska landsliðinu. Argentína tapaði fyrir Þýskalandi í úrslitaleik HM 2014 og fyrir Síle í úrslitum Copa América í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×