Fótbolti

Messi: Verður aldrei hans ákvörðun að yfirgefa Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi vill spila hjá Barcelona eins lengi og hann fær það. Argentínumaðurinn hefur spilað allan ferill sinn hjá Katalóníufélaginu.

Það gæti samt orðið þannig að nýr og betri samningur verði sá þröskuldur sem Barcelona kemst ekki yfir.

Barcelona hefur gefið það út að félagið þurfi að tryggja sér meiri tekjur frá styrktaraðilum og sölu leikmanna ætli menn þar á bæ að geta fundið pening til þess að hækka laun Messi.  

Ástæðan er nýtt launaþak hjá spænsku deildinni og með því takmarkanir hversu stór hluti getur farið í að greiða leikmönnum laun.

Messi er 29 ára gamall og heldur upp á þrítugsafmælið sitt í sumar. Núverandi samningur hans rennur út eftir átján mánuði.

Barcelona gekk frá nýjum samningum við Luis Suarez og Neymar í lok síðasta árs en ekkert er að frétta af nýjum samningi fyrir Messi.  

Messi varð spurður af blaðamanni Coach Magazine hvort það kæmi til greina hjá honum að fara í ensku úrvalsdeildina.

„Ég hef alltaf sagt að Barcelona hefur gefið mér allt og ég verð hjá félaginu eins lengi og þeir vilja mig,“ sagði Lionel Messi.

Lionel Messi er á sínu þrettánda tímabili með aðalliði Barcelona. Hann hefur skorað 480 mörk í 555 leikjum í öllum keppnum með liðinu þar af 326 mörk í 363 deildarleikjum og 93 mörk í 111 Meistaradeildarleikjum.

Enginn leikmaður hefur skorað fleiri mörk fyrir Barcelona og enginn leikmaður hefur skorað fleiri mörk í spænsku deildinni.

Það er hægt að lesa meira af viðtalinu í Coach Magazine með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×