Fótbolti

Messi: Hef engar áhyggjur þó ég sé ekkert að skora

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lionel Messi kom að sex mörkum í nótt en skoraði ekkert sjálfur.
Lionel Messi kom að sex mörkum í nótt en skoraði ekkert sjálfur. vísir/getty
Lionel Messi var allt í öllu hjá argentínska landsliðinu í fótbolta í nótt þegar það valtaði yfir Paragvæ, 6-1, í undanúrslitum Suður-Ameríkukeppninnar í Síle.

Messi skoraði ekki mark í leiknum en lagði upp þrjú og átti stóran þátt í hinum þremur. Honum hefur, ótrúlegt en satt, gengið mjög illa að skora með argentínska liðinu síðastliðið ár.

Þessi magnaði fótboltamaður skoraði 58 mörk í öllum keppnum með Barcelona á síðustu leiktíð, en hann hefur ekki skorað úr opnum leik fyrir argentínska landsliðið síðan gegn Nígeríu á HM á síðasta ári.

Þá er verið að ræða um mótsleiki, en eini vináttuleikurinn sem hann skoraði í var gegn Hong Kong í október á síðasta ári. Hong Kong er í 164. sæti heimslistans.

„Ég hef ekki of miklar áhyggjur þó ég sé ekki að skora. Við spiluðum fullkominn leik. Við fylgjum bara okkar hugmyndafræði og erum komnir í úrslitaleikinn. Við erum mjög spenntir fyrir því að geta orðið meistarar,“ sagði Lionel Messi við fréttamenn eftir leikinn í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×