Enski boltinn

Messan: Þverhaus sem þjálfar Manchester United

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Staðan á Manchester United var rædd í Messunni í gær eftir 1-1 jafntefli gegn Sunderland um helgina en félagið er við það að ganga frá kaupunum á argentínska kantmanninum Angel Di María frá Real Madrid.

Samkvæmt breskum fjölmiðlum greiðir Manchester United tæplega sextíu milljónir punda fyrir Angel Di María en óvíst er hvernig Louis Van Gaal, knattspyrnustjóri liðsins, mun stilla upp liði sínu með Di María.

„Þeir eru að ganga frá kaupunum á Di María núna en hvar ætlaru að spila honum? Ætlaru að setja hann út á kant eða ætlaru að spila honum inn á miðjunni? Ég veit ekki hvort hann virki inn á miðri miðjunni á Englandi. Hann gæti tekið stöðu Ashley Young en þá ertu áfram með Tom Cleverley og Darren Fletcher á miðjunni. Er það nógu góð miðja?,“ sagði Ríkharður Daðason áður en Guðmundur Benediktsson rifjaði upp að hann hefði spilað sem miðjumaður hjá Real Madrid.

„Hann spilað með Real Madrid mikið á síðustu leiktíð sem fremri miðjumaður með djúpan miðjumann fyrir aftan. Hann spilaði stórkostlega þar með Real Madrid en það er allt annað. Hann var ekkert að mæta leikmönnum eins og Lee Cattermole þar sem sparkar í hann,“ sagði Guðmundur áður en Ríkharður minnti á að hann þyrfti sennilega að sinna mun betri varnarvinnu hjá Manchester United.

„Varnarskyldan hjá honum á Spáni var nánast engin. Þetta er svipað og hjá Iniesta hjá Barcelona, þú átt að skila inn fyrstu pressu en þú ert ekkert að verjast í þínum eigin vítateig reglulega eins og það þarf í Bretlandi,“ sagði Ríkharður en Hjörvar Hafliðason telur að Louis Van Gaal þurfi að sleppa 3-5-2 kerfinu.

„Hann þarf að hætta í þessu leikkerfi ef hann ætlar að fá það besta úr Di María, hann verður ekki vængbakvörður né djúpur miðjumaður. Eini möguleikinn hans á að halda kerfinu og láta Di María spila er ef hann setur hann í holuna en þar eru þeir með Juan Mata. Mig grunar að hann fari í 4-2-3-1 kerfið en hann er þverhaus og gæti reynt að þrjóskast á þessu leikkerfi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×