Enski boltinn

Mertesacker frá í allt að fimm mánuði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Per Mertesacker verður lengi frá.
Per Mertesacker verður lengi frá. vísir/getty
Per Mertesacker, miðvörður Arsenal í ensku úrvalsdeildinni, gæti verið frá í fimm mánuði vegna meiðsla á hné sem hann varð fyrir í vináttuleik gegn Lens frá Frakklandi síðastliðið föstudagskvöld.

Þjóðverjinn fer ekki með Skyttunum í æfingaferð liðsins til Bandaríkjanna vegna meiðslanna en Sky Sports greinir frá að Arsenal muni staðfesta þessar fréttir á næstu 48 tímum.

Mertesacker var varafyrirliði Arsenal á síðustu leiktíð og var talinn líklegastur til að taka við bandinu eftir brotthvarf Mikel Arteta í sumar.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, þarf nú að skoða miðvarðamálin hjá sér þar sem Gabrial Paulista er einnig meiddur og Laurent Koscielny fékk lengra frí vegna þátttöku hans með Frakklandi á EM.

Calum Chambers er eini heili miðvörðurinn sem eftir er frá síðustu leiktíð en Arsenal var að festa kaup á U21 árs landsliðsmanninum Rob Holding sem kom frá Bolton.

Arsenal mætir stjörnuliði MLS-deildarinnar á föstudaginn kemur og lýkur svo Ameríkuferð sinni með leik gegn Chivas á mánudaginn í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×