Innlent

Merkilegt starf í Breiðholti, innlögnum fækkað um fjórðung

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Geðheilsustöð Breiðholts hefur náð undraverðum árangri í meðferð skjólstæðinga sinna og hefur innlögnum Breiðhyltinga á geðdeild fækkað um meira en fjórðung á þremur árum. Um tilraunaverkefni var að ræða en framtíð þess er í mikilli óvissu.

Á þeim þremur árum sem tilraunaverkefnið hefur verið starfrækt hefur geðheilsa skjólstæðinga stöðvarinnar batnað til muna. Sigríður Bjarnadóttir verkefnastjóri og geðhjúkrunarfræðingur segir innlögnum hafa fækkað um meira en 25% og legudögum um 198 daga á ári.

Hvatinn að verkefninu var tíðar innlagnir frá Breiðholti á geðsvið Landspítalans.

„Það voru 12 prósent sem leituðu á geðsvið úr Breiðholti, þannig að þetta er talsverður árangur,“ segir Sigríður frá.

Þeir sem starfa hjá Geðheilsustöðinni mæta skjólstæðingum sínum á jafningjagrundvelli. Þjónustan er heildræn og á einstaklingsgrundvelli. Unnið er eftir batahugmyndafræðinni þar sem notendum er hjálpað til að ná ýmsum markmiðum á leið til bata. Þá er farið heim til fólks ef þess gerist þörf.

Katrín Guðmundsdóttir sjúkraþjálfi og einkaþjálfari starfar á heilsustöðinni við það að aðstoða fólk við að ná markmiðum sínum. „Já, að ná markmiðum sem þeir setja sér sjálfir, þau geta verið mörg og misjöfn.“

Sigríður minnir á að það sé nauðsynlegt að líta ekki á skjólstæðinga út frá geðsjúkdómum sem þeir glíma við.

„Þetta er ekki bara spurning um einhvern geðsjúkdóm. Þetta er lífið þitt. Við þurfum að skoða hvernig lífi fólks er háttað, hvaða þættir eru hindranir og hvað getur hjálpað á veginum til bata.“

Þótt árangurinn sé svo góður að eftir er tekið er reksturinn í óvissu. Um tilraunaverkefni var að ræða sem er á enda. Nú er aðeins tekið á móti fólki í gegnum tilvísanir en draumur þeirra er að fá að taka á móti öllum þeim sem vilja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×