Lífið

Merkilegt, skemmtilegt og lærdómsríkt ár

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
„Við ætlum að halda áfram og reyna að bæta okkur,“ segir Bjarni um framtíðarhorfur Mengis.
„Við ætlum að halda áfram og reyna að bæta okkur,“ segir Bjarni um framtíðarhorfur Mengis. vísir/vilhelm
„Mengi er fyrst og fremst skapað sem vettvangur til að hugsa út fyrir boxið, prófa sig áfram á ýmsum sviðum og vinna með öðru fólki. Það þarf ekki endilega að vera bundið við listir eins og það hefur verið hingað til. Ég myndi vilja sjá aðra hluti í Mengi, eins og pælingar úr öðrum hliðum samfélagsins, til dæmis fræðimanna eða úr viðskiptalífinu,“ segir Bjarni Gaukur Sigurðsson, eigandi Mengis á Óðinsgötu. Mengi fagnar eins árs afmæli sínu um þessar mundir.

„Þetta er búið að vera mjög merkilegt ár. Þetta er þannig lagað einstök hugmynd og einstakur staður, hálfgerður listaklúbbur ef svo má segja. Það er búið að vera hellingur af frábærum viðburðum hjá okkur með frábærum listamönnum sem hafa ekki haft vettvang til að flytja sitt efni en eru reyndir og þekktir í bransanum. Þetta ár er líka búið að vera skemmtilegt og lærdómsríkt,“ segir Bjarni.

Dagskráin í þessari viku er óvenju glæsileg vegna afmælisins. Í kvöld sér Úlfur Hansson um að skemmta gestum en hann vinnur nú að hljómsveitarverki fyrir L'Orchestre Philharmonique de Radio France og Sinfóníuhljómsveit Íslands meðan hann klárar mastersnám í tónsmíðum við Mills College í Kaliforníu. Á föstudaginn verður síðan afmælisfögnuður í Mengi og á laugardaginn kemur tvíeykið Lazyblood, eða Valdimar Jóhannsson og Erna Ómarsdóttir, fram í Mengi í fyrsta sinn. Á sunnudaginn flytja síðan söngkonan Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og spænski gítarleikarinn Francisco Javier Jáuregui lög af geisladiskunum sínum Mitt er þitt – íslensk og spænsk sönglög, English and Scottish Romantic Songs for Voice and Guitar og Secretos quiero descubrir – Spanish Music for Voice, Violin and Guitar. Á sunnudaginn kemur Högni Egilsson, oft kenndur við Hjaltalín, einnig í fyrsta sinn fram í Mengi. Allri dagskrá er stillt upp af Skúla Sverrissyni, sem er listrænn stjórnandi Mengis og sér hann um að velja atriðin sem koma fram.

„Upprunalega hugmyndin, sem er enn við lýði, er að í Mengi séu helst þrír viðburðir í viku. Það hefur verið ýmiss konar list, til dæmis tónlist, dans, leikhús, vídeóverk, myndlist, gjörningar og fleira. Rauði þráðurinn hjá okkur er að vera alltaf með reglulega dagskrá sem er yfirleitt á sama tíma og kostar yfirleitt það sama inn,“ segir Bjarni en Mengi er rekið alfarið án utanaðkomandi styrkja. Það sem er enn fremur einstakt við hugmyndina á bak við Mengi er að listamenn fá ávallt greitt fyrir list sína.

„Það kostar ekkert að fá að koma fram hjá okkur. Listamenn fá greitt hlutfall af seldum miðum þannig að þeir fá alltaf greitt. Það er gert til að viðhalda metnaði, bæði hjá okkur og öðrum, að menn fái umbun fyrir listina og það er ekki ætlast til þess að listamenn fái ekki borgað eins og viðgengst,“ segir Bjarni.

En hvernig lítur næsta ár út á þessum listræna vettvangi?

„Við ætlum að halda áfram og reyna að bæta okkur.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×