Erlent

Merkel segir Breta ekki fá að velja og hafna

Samúel Karl Ólason skrifar
Theresa May og Angela Merkel.
Theresa May og Angela Merkel. Vísir/EPA
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að Bretar muni ekki fá að velja og hafna hvaða kostum Evrópusambandsins þeir vilji halda og hverja þeir vilja losna við. Hún segir að til að halda aðganginum að innri markaði ESB- og EES-ríkjanna verði Bretar að sætta sig við hið fjórþætta frelsi ESB.

Það hugtak vísar til frjáls flæðis fólks, fjármagns, þjónustu og vara yfir landamæri Evrópusambandsríkja.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, gaf í skyn um helgina að Bretar myndu mögulega loka landamærum sínum og þar með missa aðgang að innri markaðinum. Sú leið hefur gengið undir nafninu Hard Brexit ytra.

Í dag segir hún þó að sú leið sé ekki óhjákvæmileg. Hún sagði fjölmiðla hafa misskilið sig.

„Ég sætti mig ekki við þessi hugtök um hart og mjúkt Brexit. Það sem við ætlum að gera er að ná metnaðarfullum, góðum og besta samninginum fyrir Bretlandi þegar kemur að viðskiptum og að starfa innan innri markaðarins,“ er haft eftir May á vef Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×