Lífið

Mér er Reykjalundur afar kær

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Ég legg þessu málefni lið með mikilli gleði og stóru hjarta,“ segir Þórunn Lárusdóttir söngkona um styrktartónleika vegna Reykjalundar.
Fréttablaðið/GVA
"Ég legg þessu málefni lið með mikilli gleði og stóru hjarta,“ segir Þórunn Lárusdóttir söngkona um styrktartónleika vegna Reykjalundar. Fréttablaðið/GVA Vísir/GVA

Mér er Reykjalundur afar kær á svo margan hátt. Ég er alin upp í Mosfellsbæ og Reykjalundur hefur alltaf verið hluti af mínu lífi. Þar var til dæmis heilsugæslan svo þangað fór ég sem barn að láta kíkja í eyrun á mér,“ segir Þórunn Lárusdóttir, söng- og leikkona. Hún er ein þeirra listamanna sem koma fram á styrktartónleikum sem Hollvinasamtök Reykjalundar standa fyrir í kvöld klukkan 20 í Grafarvogskirkju í tilefni af 70 ára afmæli stofnunarinnar.

Þórunn kveðst eiga margar minningar tengdar Reykjalundi.

„Móðir mín, Sigríður Þorvaldsdóttir, var á Reykjalundi um tíma eftir að hún veiktist, hún fékk heilablæðingu og þurfti mikillar endurhæfingar við.

Faðir minn, Lárus Sveinsson trompetleikari, æfði Reykjalundarkórinn um tíma og á Reykjalundi sá ég föður minn síðast á lífi. Þannig að staðurinn tengist mér persónulega sterkum böndum og ég legg honum lið með mikilli gleði og stóru hjarta.“

Innt eftir lagavalinu í kvöld svarar Þórunn:

„Ég er að spá í að flytja Litla tónlistarmanninn sem er mér mjög kært lag. Svo ætla ég að þykjast kunna frönsku í smástund og enda á Kabarett.

Kjartan Valdimarsson spilar með mér eins og fleirum á þessum tónleikum. Hann er Mosfellingur eins og við Diddú og kannski fleiri sem koma þarna fram.“

Tónleikarnir verða eflaust hinir glæsilegustu. Auk þeirra Þórunnar og Diddúar koma þar fram þeir Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvaldsson, Hilmar Örn Agnarsson og kórar, Vala Guðnadóttir og Þór Breiðfjörð, Karlakór Reykjavíkur, Páll Óskar og Monika, Gunnar Þórðarson, Bubbi Morthens og Egill Ólafsson. Kynnir kvöldsins verður Þorsteinn Guðmundsson leikari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×