Skoðun

Menntun réttur allra en ekki fárra útvaldra

Þórður Hjaltested og Aðalheiður Steingrímsdóttir skrifar
Alþjóðadagur kennara er haldinn hátíðlegur um heim allan 5. október ár hvert.

Til dagsins var stofnað að frumkvæði UNESCO og Alþjóðasamtaka kennara (Education International) árið 1994. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á því mikilvæga starfi sem kennarar inna af hendi á hverjum degi fyrir einstaklinga og samfélög og lykilhlutverki kennara í gæðamenntun komandi kynslóða. Um 30 milljón kennarar í 171 landi tilheyra Alþjóðasamtökum kennara.

Á Alþjóðadegi kennara í ár munu Alþjóðasamtök kennara, alþjóðastofnanir og þjóðarleiðtogar koma saman til að vekja athygli á markmiðum sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett fyrir árið 2030 um sjálfbæra þróun og lykilhlutverk sem kennurum er ætlað til að þau nái fram að ganga.

Við íslenskir kennarar erum stoltir af því að tilheyra öflugri heimshreyfingu kennara sem berst fyrir sjálfbæru samfélagi, friði og réttlæti.

Hlutverk kennara hefur aldrei verið eins mikilvægt og nú í að byggja upp sjálfbært samfélag en stór liður í því er gæðamenntun fyrir alla, jöfn tækifæri til menntunar og vel menntaðir einstaklingar. Menntun er réttur allra en ekki fárra útvaldra. Kennarar gegna meginhlutverki í því að vinna að réttlátu samfélagi í öllum heiminum.

Styðja þarf markvisst við kennara til að ná þessu markmiði. Sífellt fleiri gera sér grein fyrir því mikilvæga hlutverki sem kennarar hafa í menntun barna og þætti kennara í að gera ungu fólki kleift að verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Til að vinna að samfélagslegum jöfnuði þurfa kennarar að vera vel menntaðir, kennarastarfið þarf að vera metið að verðleikum og eftirsóknarvert fyrir ungt fólk. Kennarar þurfa að búa við góð starfsskilyrði og vinnuumhverfi. Kennarar eru sérfræðingar í námi og kennslu. Virða ber faglegt sjálfstæði kennara og treysta skal fagmennsku þeirra.

Stjórnvöld þurfa að leggja sig fram við að eiga samstarf og samræður við kennara og samtök þeirra og móta stefnu og aðgerðir um mikilvægi kennarastarfsins fyrir samfélagið.

Kennarar – til hamingju með daginn!




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×