Innlent

Menntaskólinn að Laugarvatni útskrifaði 44 stúdenta

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Stúdentar ásamt skólameistara.
Stúdentar ásamt skólameistara. mynd/ívar sæland
Menntaskólinn að Laugarvatni útskrifaði 44 stúdenta síðastliðinn laugardag. Þetta er fjórði stærsti útskriftarhópurinn í sögu skólans. 23 útskrifuðust af félagsfræðibraut og 21 af náttúrufræðibraut. Í ræðu skólameistara, Halldórs Páls Halldórssonar, kom fram að umsóknir fyrir komandi haust væru talsvert umfram það sem skólinn gæti tekið við.

Fyrir hönd júbílanta talaði Hjálmar Gíslason en hann er tuttugu ára stúdent. „Ég hef stundum sagt að það ætti að skylda alla til að ganga í heimavistarskóla að minnsta kosti hluta af sinni skólagöngu. Það er einstaklega þroskandi og mótandi og undirbýr mann undir margt sem seinna kemur í lífinu,” sagði Hjálmar meðal annars.

Hæstu einkunn á stúdentsprófi, sem jafnframt var hæsta einkunn yfir skólann þetta árið, hlaut Guðbjörg Hrönn Tyrfingsdóttir frá Ljónsstöðum í Sandvíkurhreppi. Guðbjörg útskrifaðist með einkunnina 9,79 en þetta er næst hæsta einkunn á stúdentsprófi í sögu skólans. Semidúx skólans var Teitur Sævarsson frá Arnarholti í Biskupstungum en hann útskrifaðist með einkunnina 9,20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×