Innlent

Mennska leitarvélin sópaði til sín verðlaunum: „Svipað og ef KR hefði unnið Meistaradeildina“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Verðlaunin eru ein þau virtustu í auglýsingaheiminum.
Verðlaunin eru ein þau virtustu í auglýsingaheiminum. Vísir
Inspired by Iceland sópaði að sér verðlaunum á hinni virtu Euro Effie auglýsingaverðlaunahátíð en Markaðsherferðin Ask Guðmundur hlaut fimm Euro Effie verðlaun við hátíðlega athöfn í Brussel í gærkvöldi. Verðlaunin eru veitt fyrir árangursríkustu auglýsingar ársins. Daði Guðjónsson hjá Íslandsstofu líkir þessu við að ef KR hefði unnið Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu.

Herferðin sem gerð var af Íslensku auglýsingastofunni og The Brooklyn Brothers í London á vegum Íslandsstofu, var tilnefnd í fjórum flokkum.

• Besti sýnilegur árangur óháð miðli

• David Vs Goliath

• Afþreying og skemmtun

• Minna fjármagn

Skemmst er frá því að segja að herferðinn sigraði í öllum þessum flokkum auk þess sem að aðalverðlaun kvöldsins, svokölluð Grand Prix-verðlaun, féllu herferðinni í skaut.

Markmið herferðarinnar Ask Guðmundur var að hvetja ferðamenn til að ferðast víðar um landið á meðan á heimsókn þeirra stendur. Ferðamenn gátu nýtt samfélagsmiðla til að spyrja spurninga um Ísland Var útbúin einskonar mennsk leitarvél en sjö einstaklingar sem allir bera nafnið Guðmundur eða Guðmunda sáu um að svara. Hver landshluti tefldi fram sínum eigin „Guðmundi“ sem svaraði spurningum tengdum sínu svæði.





Herferðin vakti mikla athygli víða um heim. Barack Obama Bandaríkjaforseti grínaðist með herferðina þegar Sigurður Ingi Jóhannsson brá sér til Bandaríkjanna í opinbera heimsókn. Í fréttaskýringu Vox.com á ástæðum þess fyrir því að metfjöldi Bandaríkjamanna komi nú til Íslands eru herferðir Inspired by Iceland nefndar sem dæmi um það hvernig tókst að vekja athygli á Íslandi í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli.

Daði Guðjónsson hjá Íslandsstofu var viðstaddur verðlaunaathöfnina í gær og birti mynd af sér með verðlaununum á Facebook. Þar segir hann að herferðin hafi att kappi gegn vörumerkjum á borð við Volvo, Jaguar, Duracell og MasterCard. Hann segir verðlaunin séu gríðarlegur árangur og setur þetta í samhengi við knattspyrnuheiminn.

„Þetta er svipað og ef KR hefði unnið Meistaradeildina, nema bara þetta er fyrir árangur í markaðssetningu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×