Skoðun

Menningarnótt – einnar nætur gaman?

Björn Blöndal skrifar
Menningarnótt, sem reyndar fer ekki minna fram að degi til, er haldin á morgun. Þetta er fjölsóttasta menningarhátíð landsins og hefur verið það lengi. Það er beðið eftir Menningarnótt með eftirvæntingu enda ótrúlega fjölbreytt dagskrá, allt frá íþróttum til menningar í hæstu hæðum. Menningarnótt er grasrótarhátíð. Reykjavíkurborg ásamt samstarfsaðilum býr til rammann og svo fylla þeir sem hafa áhuga og getu inn í hann.

Rétt er að hafa í huga að menning er ekki einnar nætur gaman. Menning og listir eru að mínu mati undirstaða heilbrigðs og góðs samfélags. Menningin er form samskipta, kannski þróaðasta form sem til er. Ef ekki væri fyrir menningu þá værum við ekkert svo frábrugðin öðrum dýrategundum, menning og húmor er það sem gefur okkur forskot hér á jörð og þó víðar væri leitað.

Þegar rætt er um fjárframlög opinberra aðila til menningar er gjarnan talað um bruðl og gæluverkefni. Fjárframlög til menningar eru jafnvel tengd við niðurskurð í heilbrigðisþjónustu eða eitthvað þaðan af verra. Þegar kemur að heilbrigði þjóðarinnar þá er sennilega fátt sem hefur eins góð áhrif og menning og listir.

Íslendingar hafa brallað margt síðan land byggðist en það er þó í raun bara tvennt sem þetta land er verulega þekkt fyrir að góðu; náttúra og list. Ef það væri gerð könnun á því fyrir hvað Ísland er þekkt meðal útlendinga þá myndu sennilega flestir nefna Björk og svo náttúruna. Margir listamenn hafa getið sér gott orð erlendis og fjöldi fólks sækir landið heim á ári hverju beinlínis vegna aðdáunar á íslenskri list.

Á morgun munu hundruð listamanna bjóða okkur að njóta sköpunar sinnar. Við munum í leiðinni njóta samvista við hvert annað.

Vínarpylsur og bjúgu eru ekki grunnurinn að sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar, það er listin.

Gleðilega Menningarnótt.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×