Lífið

Menn og dýr syngja saman

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Mikil gleði verður í garðinum um helgina.
Mikil gleði verður í garðinum um helgina.
Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn fagnar 25 ára afmæli sínu um þessar mundir og af því tilefni fara þar fram heljarinnar tónleikar á sunnudaginn. „Þarna munu menn og dýr syngja og dansa saman,“ segir Stuðmaðurinn Jakob Frímann Magnússon, en hann kemur fram á tónleikum með hljómsveit sinni, Jack Magnet Quintet, og þá mun hann einnig spila með reggíhljómsveitinni AmabaDama. Jakob Frímann og reggísveitin hafa leitt saman hesta sína að undanförnu og komu fram á Innipúkanum í gær.

„Við vorum búin að æfa þetta fína prógramm fyrir Innipúkann og nú flytjum við það fyrir annan markhóp. Þarna er líklega breiðasti aldurshópur landsins af gestum á tónleikum um helgina. Þarna verða foreldrar með börn frá eins árs aldri og svo foreldrar með foreldra, aldurshópurinn er líklega frá eins árs til hundrað ára,“ segir Jakob.





Jakob Frímann og reggísveitin AmabaDama hafa leitt saman hesta sína að undanförnu.Vísir/Andri Marinó
Hann hefur oft komið fram á tónleikum í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum með Stuðmönnum og hefur miklar mætur á garðinum græna.

„Laugardalurinn, þessi fallegi græni staður, er fullkomin umgjörð um svona tónleikahald þar sem tónleikar eru í forgrunni en ekki Bakkus. Á svona hátíðum er Bakkus gjarnan að skemmta og tónlist til kryddunar. Þessi iðgræni skógivaxni dalur hefur góð áhrif og dýrin þar eru á besta mögulega staðnum. Þetta er öruggur staður til að vera á.“

Á tónleikunum koma einnig fram söngkonurnar Dísa, dóttir Jakobs, og Glowie sem syngur eitt vinsælasta lag landsins í dag, No more. Tónleikarnir hefjast klukkan 14.30 á sunnudag. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×