Viðskipti innlent

Meniga fær milljarð og ætlar í frekari útrás

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Georg Lúðvíksson er forstjóri Meniga.
Georg Lúðvíksson er forstjóri Meniga.
Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur lokið við fjármögnun að fjárhæð 7,3 milljónum evra. Upphæðin jafngildir um einum milljarði íslenskra króna. Fjármögnunin fór fram með aukningu hlutafjár frá núverandi fjárfestum, undir forystu hollenska fjárfestingafélagsins Velocity Capital, Frumtaks sem og lánsfé. Willem Willemstein eigandi og framkvæmdastjóri Velocity Capital hefur í kjölfarið af fjármögnuninni tekið sæti í stjórn Meniga.

Meninga er íslenskt hugbúnaðarfyritæki og hefur starfsstöðvar í Reykjavík, London og Stokkhólmi. Félagið var stofnað árið 2009 og er í dag markaðsleiðandi á heimsvísu í þróun heimilisfjármálalausna fyrir banka og fjármálastofnanir. Meðal viðskiptavina Meniga eru nokkrir af stærstu bönkum heims, meðal annars Santander, mBank, Intesa Sanpaolo og ING Direct.

Auk áherslu á heimilisfjármálahugbúnað hefur Meniga meðal annars þróað neyslutengt tilboðskerfi, sem ætlað er að hjálpa einstaklingum og fjölskyldum að spara.

Fjármögnuninni er ætlað að efla sókn fyrirtækisins á erlenda markaði en lausnir félagsins eru nú þegar aðgengilegar yfir 35 milljónum notendum í um 20 löndum.

„Fjármögnunin gefur Meniga tækifæri til að halda áfram þróun á hugbúnaði í tengslum við neyslutengd tilboð ásamt því að styrkja grunnrekstur félagsins og áframhaldandi sókn á erlenda markaði,“ segir Benedikt Orri Einarsson, fjármálastjóri Meniga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×