Fótbolti

Men in Blazers karlinn mætti með Íslandshúfu í þáttinn sinn og er ástfanginn af Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Samsett
Men in Blazers karlarnir, Roger Bennett og Michael Davies, fóru yfir sextán liða úrslit Evrópukeppninnar í Frakklandi í nýjasta þætti sínum á VICE Sports en útsláttarkeppni EM 2016 hefst um næstu helgi.

Eins og allir vita þá eru strákarnir okkar meðal þeirra þjóða sem komust í sextán liða úrslitin og mæta Englandi í lokaleik sextán liða úrslitanna á mánudaginn.

Roger Bennett heimsótti Íslands á dögunum og setti saman skemmtilegt innslag sem má sjá hér: Víkingarnir sem sjokkeruðu Ronaldo | Sjáðu umfjöllun Roger Bennett um Ísland

Þar fjallar hann á mjög jákvæðan hátt um íslenska fótboltaævintýrið og ræðir við fullt af mönnum tengdum íslenskri knattspyrnu allt frá formanni KSÍ til stuðningsmanna íslenska liðsins.

Nú var Roger Bennett mættur í myndverið með Michael Davies og hann var að sjálfsögðu búinn að setja upp íslenska stuðningsmannahúfu. Fyrir utan það þá skálaði hann í íslensku brennivíni.

„Leikurinn sem ég bíð spenntastur eftir er á milli landsins þar sem ég fæddist og landsins sem er orðinn gjörsamlega ástfanginn af "Íslandi"," sagði Roger Bennett og notaði ekki „Iceland" heldur „Ísland".

Þessi Íslandsferð hafi greinilega mikil áhrif á Roger Bennett og ekki hefur það spillt fyrir að íslenska liðið hefur síðan slegið í gegn í Evrópukeppninni, hefur enn ekki tapað leik og er komið alla leið í sextán liða úrslitin á sínu fyrsta stórmóti.

Roger Bennett hrósar íslensku strákunum fyrir frammistöðuna í Frakklandi og talar að sjálfsögðu einnig um hversu lítil við erum og úr hversu fáum atvinnumönnum við höfum úr að velja til að búa til liðið okkar.

Það er hægt að sjá þennan stórskemmtilega þátt Men in Blazers hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×