Fótbolti

Memphis kom Hollendingum til bjargar í Lúxemborg

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Memphis Depay bjargaði andliti Hollendinga í Lúxemborg í undankeppni HM 2018 í kvöld.

Memphis kom inn á sem varamaður fyrir Wesley Sneijder í hálfleik og skoraði tvö mörk í seinni hálfleik. Lokatölur 1-3, hollenska liðinu í vil.

Arjen Robben, fyrirliði Hollands, kom sínum mönnum yfir á 36. mínútu en átta mínútum síðar jafnaði Maxime Chanot metin úr vítaspyrnu.

Staðan í hálfleik var 1-1 en Memphis skoraði fyrra mark sitt á 58. mínútu. Hann skallaði þá fyrirgjöf Daleys Blind í netið. Sannkölluð Manchester United samvinna þar á ferð.

Memphis skoraði svo öðru sinni, beint úr aukaspyrnu, sex mínútum fyrir leikslok.

Hollendingar eru með sjö stig í 2. sæti A-riðils, þremur stigum á eftir toppliði Frakka.

Í sama riðli vann Búlgaría 1-0 sigur á Hvíta-Rússlandi.

Ivelin Popov skoraði eina mark leiksins strax á 10. mínútu. Í uppbótartíma fékk Aleksandr Hleb, fyrrum leikmaður Arsenal og Barcelona, rauða spjaldið og Hvít-Rússar kláruðu leikinn því einum færri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×