Erlent

Melania blandar sér í deilur um innflytjendafjölskyldur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna.
Melania Trump, forsetafrú Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Forsetafrú Bandaríkjanna, Melania Trump, vill að lát verði á aðgerðum lögreglu sem beinast gegn fjölskyldum ólögregla innflytjenda við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna. 

Umræddar aðgerðir landamæralögreglu eru afleiðing strangrar stefnu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í innflytjendamálum, sem hefur verið harðlega gagnrýnd.

Sjá einnig: Chrissy Teigen og John Legend héldu upp á afmæli Donald Trump

Talið er að á síðustu sex vikum hafi komið upp yfir 2000 tilfelli þar sem börn eru aðskilin frá foreldrum sínum við inngöngu í Bandaríkin frá Mexíkó. Foreldrarnir, sem teljast ólöglegir innflytjendur, eru hnepptir í varðhald og sóttir til saka þegar þeir freista þess að komast yfir landamærin með fjölskyldur sínar. Börn þessara innflytjenda eru nú upp á bandarísk yfirvöld komin og skipta þau hundruðum, að því er segir í frétt BBC.

Í yfirlýsingu frá talskonu Melaniu Trump segir að forsetafrúnni sé meinilla við að börn séu tekin frá foreldrum sínum á þennan hátt. Þá vonast hún til þess að þverpólitísk sátt náist um málið.

Eiginmaður hennar Bandaríkjaforseti hefur sætt mikilli gagnrýni vegna málsins en sjálfur kennir hann lögum „sem Demókratar gáfu okkur“ um ástandið. Ekki er ljóst hvað forsetinn á við með þeirri staðhæfingu.

Í gær hvatti Trump Demókrata og Repúblikana til samstarfs. Þannig mætti knýja fram umbætur í málinu, að því er segir í færslu forsetans á Twitter.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×