Sport

Meistaramánuður Stevie G?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard.
Steven Gerrard. Vísir/Getty
Dramatísk viðbrögð Liverpool-mannsins Stevens Gerrard í lokin á 3-2 sigri á Manchester City í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar síðasta sunnudag sögðu meira en mörg orð.

Lykilmaður Liverpool-liðsins í miklu meira en áratug hefur horft upp á biðina eftir stóra titlinum lengjast og lengjast og á meðan hafa erkifjendurnir Manchester United unnið hvern titilinn á fætur öðrum og tekið stöðu Liverpool sem sigursælasta félag enskrar knattspyrnu.

Það er ekki ólíklegt að jafnvel hörðustu andstæðingar Liverpool geti unnt Steven Gerrard að hljóta loksins Englandsmeistaratitilinn. Hann hefur verið í hópi bestu leikmanna deildarinnar í langan tíma, haldið trúnaði við sitt félag á tímum þar sem peningarnir tala og félagsskipti leikmanna eru tíð.

Nú áttaði þessi frábæri leikmaður sig kannski á því að ekki gæfust fleiri tækifæri fyrir hann og knattspyrnuspekingarnir geta verið sammála um að þetta hafi hægt og rólega breyst í dauðafæri til að enda næstum aldarfjórðungsbið eftir Englandsmeistaratitlinum.

Gerrard með enska bikarinn sem liðið vann 2006.Vísir/Getty
Tíu sigurleikir í röð

Liverpool hefur unnið tíu leiki í röð og marga þeirra þrátt fyrir að sækja boltann tvisvar og jafnvel þrisvar í eigið net. Sóknarleikur liðsins er á góðri leið í sögubækurnar og ef marka má hvað féll með liðinu í City-leiknum er þetta svolítið eins og örlögin hafi ákveðið að nú sé loksins komið að Steven George Gerrard.

Steven Gerrard spilaði sinn fyrsta deildarleik með Liverpool 29. nóvember 1998 en þá hafði Liverpool beðið í átta ár eftir þeim stóra og fram undan var gullið tímabil erkifjendanna í Manchester United sem unnu þá þrefalt.

Gerrard hefur sjálfur talað um stressið sem náði tökum á honum í þessum fyrstu skrefum hans í deild þeirra bestu en árið eftir var hann búinn að tryggja sér fast sæti í liðinu.

Fljótlega var Gerrard orðinn andlit Liverpool-liðsins og hefur verið allar götur síðan. Hann hefur verið fyrirliði Liverpool síðan í október 2003 en var varafyrirliði Samis Hyypiä tímabilið á undan.

Englandsmeistaratitillinn hefur ekki náðst en Gerrard hefur þó fengið að taka á móti bikurum. Liverpool vann eftirminnilegan sigur í Meistaradeildinni vorið 2005 og hann hefur einnig tekið við enska bikarnum (2006) og enska deildabikarnum (2012). Það efast enginn um löngun Stevens Gerrard til að fá að handleika Englandsbikarinn í næsta mánuði, 24 árum eftir að Alan Hansen tók við honum.

Gerrard er ekki lengur leikmaðurinn sem oft lætur líta út fyrir að Liverpool sé með einum til tveimur mönnum fleira inni á vellinum.

Hann hefur fengið nýtt hlutverk hjá Brendan Rodgers aftarlega á miðjunni sem hann hefur nýtt frábærlega og væri eflaust efstur á mörgum listum yfir knattspyrnumann ársins ef kappi að nafni Luis Suarez væri ekki búinn að splundra nær öllum varnarlínum deildarinnar.

Gerrard hefur unnið meistaradeildina með Liverpool en ekki deildina.Vísir/Getty
Þáttur Suarez og Rodgers

Gerrard á vissulega þeim Suarez og Rodgers mikið að þakka og fljótlega kemur í ljós hvort „mikilvægasti mánuðurinn á ferlinum“ eins og Gerrard lýsir lokakafla deildarinnar endi á því að hann handleiki loksins Englandsmeistarabikarinn. Það væri vel skrifaður endir á mögnuðum ferli sem hófst í unglingaliði Liverpool þegar hann var aðeins sjö ára gamall.

Uppklappið gæti Gerrard síðan tekið á HM í Brasilíu í sumar þar sem hann mun leiða enska landsliðið en Englendingar hafa ekki unnið HM í 48 ár. Áður en ég og aðrir missum okkur í ævintýralegum vangaveltum um draumaútgáfur Stevie G af árinu 2014 þá er komið að leik á móti Norwich á páskadag.

Þrumuræða Gerrards strax eftir lokaflautið í City-leiknum snerist einmitt um þann leik. Þar fáum við að vita hvort liðsfélagar hans hafi hlustað á sinn mann.

Chelsea og Manchester City ætla vissulega að gera allt til að lengja biðina enn frekar en staðreyndin er sú að Gerrard og félagar eru „aðeins“ fjórum sigurleikjum frá því að vinna fyrsta Englandsmeistaratitil Liverpool frá 1990.

Grafík/Fréttablaðið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×