Íslenski boltinn

Meistaraflokkur kvenna hjá Fram gagnrýnir stjórn félagsins: Greinilegt að karlaliðið hefur forgang

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Meistaraflokkur kvenna hjá Fram.
Meistaraflokkur kvenna hjá Fram.
Meistaraflokkur kvenna í fótbolta hjá Fram birti nú fyrir skemmstu pistil á Vísi þar sem leikmenn liðsins gagnrýna stjórn félagsins fyrir áhugaleysi í þeirra garð.

Í pistlinum segir að þjálfari liðsins hafi hætt eftir síðasta tímabil og nú, 22. nóvember, sé ekki búið að finna nýjan þjálfara. Leikmenn liðsins hafa leitað svara hjá stjórn félagsins en engin fengið.

Í pistlinum segir að karlalið Fram sé greinilega forgangsatriði félagsins.

„Það er greinilegt að forgangsatriði félagsins sé á meistaraflokk karla en þar er þjálfari, aðstoðarþjálfari og hefur liðið verið að sanka að sér leikmönnum fyrir næsta tímabil ásamt því að liðið er komið á fullt í æfingum og nú þegar búið að skipuleggja æfingaleiki. Á meðan situr meistaraflokkur kvenna á hakanum og kjarninn sem vill ekki gefa upp bátinn mætir og reynir að halda hópnum saman tvo daga í viku. Áhugi stjórnarmanna virðist lítill sem enginn og hafa leikmenn það á tilfinninguni að kvennaboltinn sé ekki það sem félagið leggur áherslu á,“ segir í pistlinum.

Þar kemur einnig fram að þeir leikmenn sem eru eftir hjá félaginu hafi sjálfir séð um æfingar upp á síðkastið.

„Eins og við höfum nefnt hafa leikmenn mætt sjálfar á æfingar frá því í október og stjórnað þeim, án þess að nokkur stjórnarmaður félagsins hafi sett út á það eða fengið nokkurn mann til aðstoðar á þessu „tímabundna” ástandi. Leikmönnum meistaraflokks er nóg boðið og viljum við vekja athygli á þessu. Ef fáar sem engar stelpur hefðu áhuga á að æfa væri skilningurinn meiri en það sorglega er að svo er ekki. Hver er framtíð félagsins og hver er framtíð ungra og efnilegra kvenna í félaginu,“ segir í pistlinum.

Pistilinn má lesa með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×