Fótbolti

Meistaradeildin: Þetta þurfa liðin að gera til að komast í 16 liða úrslit

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Liverpool gerði sér erfitt fyrir með jafntefli í Búlgaríu í gærkvöldi.
Liverpool gerði sér erfitt fyrir með jafntefli í Búlgaríu í gærkvöldi. vísir/getty
Fimmtu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar lauk í gær með átta leikjum þar sem t.a.m. Real Madrid lagði Basel, Arsenal vann Dortmund á heimavelli og Liverpool náði aðeins jafntefli í Búlgaríu.

Chelsea er eina enska liðið sem er búið að vinna sinn riðil, en Arsenal er einnig komið áfram í 16 liða úrslitin. Liverpool og Manchester City þurfa að vinna í lokaumferðinni til að komast áfram.

Barist er um efstu sætin í sumum riðlum og auðvitað þriðja sætið sem heldur Evróputúrnum á lífi með „falli“ í Evrópudeildina.

Við skulum skoða hvað liðin þurfa að gera til að komast áfram í 16 liða úrslitin eða tryggja sér sæti í Evrópudeildinni.

Cristiano Ronaldo og félagar eru í góðum málum.vísir/getty
A-RIÐILL

Atlético Madrid (12 stig, +11) er komið áfram í 16 liða úrslitin og þarf stig á útivelli gegn Juventus til að vinna rirðilinn. Liðið má einnig tapa með einu marki gegn Juve.

Juventus (9, +3) þarf stig á heimavelli gegn Atlético til að komast örugglega áfram og liðið vinnur riðilinn með tveggja marka sigri eða stærri gegn spænsku meisturunum.

Olympiacos (6, -5) getur bara komist áfram ef það vinnur Malmö heima og Juventus tapar fyrir Atlético. Grikkirnir mega ekki tapa fyrir sænska liðinu ef þeir ætla sér í Evrópudeildina.

Malmö (3, -9) kemst í Evrópudeildina ef það vinnur Olympiacos í Grikklandi.

B-RIÐILL

Real Madrid (15 stig, +10) er búið að vinna riðilinn.

Basel (6, -1) þarf eitt stig á útivelli gegn Liverpool til að ná öðru sætinu.

Liverpool (4, -4) kemst áfram ef það vinnur Basel í lokaumferðinni á heimavelli.

Ludogorets (4, -5) er úr leik í Meistaradeildinni en getur enn komist í Evrópudeildina. Ef liðið vinnur Real Madrid er það öruggt þangað, en ef það nær stigi af Real fer það í Evrópudeildina ef Liverpool tapar gegn Basel.

Alexis Sánchez og hans menn í Arsenal geta enn náð efsta sætinu.vísir/getty
C-RIÐILL

Bayer Leverkusen (9 stig, +3) er komið áfram þar sem Monaco og Zenit mætast í lokaumferðinni, en það þarf sigur gegn Benfica til að tryggja sér efsta sætið.

Monaco (8, +1) má ekki tapa gegn Zenit í lokaumferðinni ætli það sér áfram. Jafntefli gæti dugað til að vinna riðilinn ef Leverkusen tapar gegn Benfica. Frakkarnir ná efsta sætinu ef þeir vinna og Leverkusen nær ekki þremur stigum gegn Benfica.

Zenit (7, +0) þarf að vinna Monaco til að komast áfram. Rússarnir ná efsta sætinu með sigri ef Leverkusen tapar fyrir Benfica.

Benfica (4, -4) er búið í Evrópu í ár.

D-RIÐILL

Dortmund (12 stig, +10) er komið áfram og vegna hagstæðrar markatölu mun jafntefli gegn Anderlecht heima í lokaumferinni líklega duga til að ná efsta sætinu.

Arsenal (10, +4) er komið áfram og þarf að vinna Galatasaray í lokaumferðinni og vona að Dortmund tapi fyrir Anderlecht til að ná efsta sætinu. Skytturnar geta líka náð efsta sætinu ef Dortmund gerir jafntefli, en þurfa þá að vinna Tyrkina með sex mörkum.

Anderlecht (5, -2) er komið í Evrópudeildina.

Galatasaray (1, -12) er búið í Evrópu í ár.

Sergio Agüero hélt draumum Manchester City á lífi.vísir/getty
E-RIÐILL

Bayern (12 stig, +9) er komið áfram sem sigurvegari riðilsins.

Roma (5, -4) kemst örugglega áfram með sigri gegn City í lokaumferðinni og markalaust jafntefli dugar einnig ef CSKA tapar gegn Bayern. Roma kemst einnig áfram með jafntefli svo lengi sem CSKA nær jafntefli. Roma náði í öll sín stig gegn CSKA og City þannig það vinnur innbyrðis baráttu þessarra þriggja liða.

Man. City (5, -1) kemst áfram ef það vinnur Roma svo lengi sem CSKA vinnur ekki Bayern. Marka-jafntefli gegn Roma dugar einnig svo lengi sem Bayern vinnur CSKA.

CSKA Mosvka (5, -4) kemst áfram ef það vinnur Bayern og Roma vinnur ekki Man. City. Ef CSKA og City vinna bæði kemst CSKA áfram á betri innbyrðis úrslitum.

F-RIÐILL

Paris Saint-Germain (13 stig, +5) er komið áfram og berst um efsta sætið í lokaumferðinni gegn Barcelona. Jafntefli dugar PSG.

Barcelona (12 stig, +8) þarf að vinna PSG á heimavelli til að ná efsta sæti riðilsins.

Ajax (2, -6) spilar úrslitaleik um Evrópudeildarsætið við Kýpverjana og dugir jafntefli.

AOPEL (1, -7) þarf að vinna Ajax á útivelli til að komast í Evrópudeildina.

Eden Hazard og strákarnir í Chelsea eru búnir að vinna G-riðilinn.vísir/getty
G-RIÐILL

Chelsea (11 stig, +12) er búið að vinna riðilinn.

Sporting (7, +2) er með tveggja stiga forystu á Schalke fyrir lokaumferðina og þarf stig gegn Chelsea til að komast áfram þar sem það er með betri úrslit í innbyrðis viðureignum gegn þýska liðinu.

Schalke (5, -6) þarf að vinna Maribor á útivelli og vonast til að Sporting tapi fyrir Chelsea til að komast áfram.

Maribor (3, -8) getur náð Evrópudeildarsæti ef það vinnur Schalke á heimavelli.

H-RIÐILL

Porto (13, +12) er búið að vinna riðilinn.

Shakhtar Donetsk (8, +11) er komið áfram í 16 liða úrslitin.

Athletic Bilbao (4, -3) er með eins stigs forystu á BATE fyrir lokaumferðina og dugir jafntefli gegn Hvít-Rússunum á heimavelli til að komast í Evrópudeildina.

BATE Borisov (3, -20) þarf að vinna Athletic Bilbao á útivell til að komast í Evrópudeildina.

Greinin er unnin upp úr fréttaskýringu ESPN FC.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×