Enski boltinn

Meistaradeildardraumur West Ham lifir enn | Öll úrslit dagsins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mark Noble skoraði tvívegis gegn West Brom.
Mark Noble skoraði tvívegis gegn West Brom. Vísir/Getty
West Ham á enn möguleika á að komast í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili eftir 0-3 sigur á West Brom á The Hawthorns í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Heimamenn byrjuðu leikinn betur en tókst ekki að skora. Það gerði Cheikhou Kouyate hins vegar á 34. mínútu þegar hann kom West Ham í 0-1.

Fyrirliðinn Mark Noble bætti öðru marki við í uppbótartíma fyrri hálfleiks og hann var svo aftur á ferðinni á 79. mínútu þegar hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark West Ham.

Hamrarnir eru nú með 59 stig í 5. sæti deildarinnar, fimm stigum frá Arsenal sem er í 4. sætinu. West Brom hefur hins vegar tapað fjórum af síðustu fimm leikjum sínum og er í 13. sæti.

Everton vann sinn fyrsta deildarleik síðan 1. mars þegar Bournemouth kom í heimsókn á Goodison Park.

Tom Cleverley og Leighton Baines skoruðu mörk Everton í 2-1 sigri. Marc Pugh gerði mark Bournemouth sem hefur tapað þremur leikjum í röð.

Eftir þrjá tapleiki í röð með markatölunni 1-12 virtist Stoke City vera komið aftur á sigurbraut gegn Sunderland í dag.

Marco Arnautovic kom Stoke í 1-0 á 50. mínútu með sínu ellefta deildarmarki og þannig var staðan fram í uppbótartíma þegar Sunderland fékk vítaspyrnu.

Jermain Defoe steig fram og jafnaði metin fyrir Sunderland. Þetta var fjórtánda deildarmark Defoe í vetur en hann hefur reynst liðinu afar dýrmætur.

Stoke er í 9. sæti deildarinnar en Sunderland í því átjánda. Lærisveinar Sams Allardyce eru einu stigi frá öruggu sæti eftir sigur Newcastle á Crystal Palace í dag en eiga leik til góða.

Aston Villa var í kjörstöðu til að vinna sinn fyrsta leik síðan 6. febrúar gegn Watford á útivelli. Villa-menn voru 1-2 yfir þangað til á lokamínútunni þegar Troy Deeney, fyrirliði Watford, jafnaði metin.

Deeney var ekki hættur því hann tryggði sínum mönnum sigurinn þegar hann skoraði öðru sinni þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Þetta var ellefta tap Villa í röð.

West Brom 0-3 West Ham

0-1 Cheikhou Kouyate (34.), 0-2 Mark Noble (45+2), 0-3 Noble (79.).

Everton 2-1 Bournemouth

1-0 Tom Cleverley (7.), 1-1 Marc Pugh (9.), 2-1 Leighton Baines (64.).

Stoke City 1-1 Sunderland

1-0 Marko Arnautovic (50.), 1-1 Jermain Defoe, víti (90+3).

Watford 3-2 Aston Villa

0-1 Ciaran Clark (28.), 1-1 Almen Abdi (45+2.), 1-2 Jordan Ayew (48.), 2-2 Troy Deeney (90.), 3-2 Deeney (90+3).

Rautt spjald: Aly Cissokho, Aston Villa (73.).

Newcastle 1-0 Crystal Palace

1-0 Andros Townsend (59.).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×