Innlent

Meirihlutinn íhugar að hætta við leikskólaniðurskurð

Haraldur Guðmundsson skrifar
Leikskólabörn á Kirkjubóli. Meðlimir foreldraráðs leikskólans Sunnuborgar í Reykjavík hafa að undanförnu fullyrt í fjölmiðlum að maturinn sem börn í leikskólum borgarinnar fá uppfylli ekki opinber manneldismarkmið.
Leikskólabörn á Kirkjubóli. Meðlimir foreldraráðs leikskólans Sunnuborgar í Reykjavík hafa að undanförnu fullyrt í fjölmiðlum að maturinn sem börn í leikskólum borgarinnar fá uppfylli ekki opinber manneldismarkmið. Vísir/Pjetur
Sóley Tómasdóttir, forseti borgarstjórnar, segir meirihlutann í borginni íhuga að falla frá lækkun á framlögum til hráefniskaupa mötuneyta leikskóla Reykjavíkur. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, gagnrýnir áform meirihlutans um að lækka framlögin um 7,5 prósent á næsta ári.

Kjartan Magnússon
„Þarna hefur verið heldur naumt skammtað síðustu árin og það hafa komið fram mjög vel rökstuddar athugasemdir, bæði frá leikskólastjórum í borginni og foreldrum, um að þessi sparnaður hafi komið niður á börnunum okkar og að maturinn uppfylli ekki lengur opinber manneldismarkmið,“ segir Kjartan.

Fulltrúar flokksins í borgarráði lögðu í gær fram breytingartillögu við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2015. Í tillögunni er lagt til að framlög til hráefniskaupa í mötuneytum leikskóla verði ekki skert heldur hækkuð um 3,4 prósent eða rúmar 16 milljónir króna.

„Áætlunin gerir ráð fyrir 7,5 prósenta skerðingu á þessum 480 milljónum sem fara í hráefniskaup. Ef við tökum tillit til verðlagsforsenda þá er þetta hins vegar þannig að hver leikskólastjóri hefði þá um 11 prósentum minna en hann hefur núna,“ segir Kjartan.

Sóley Tómasdóttir
Sóley Tómasdóttir segist hafa talsverða samúð með tillögu Sjálfstæðisflokksins.

„Við höfum talað um að leggja fram breytingartillögu varðandi þetta mál en erum ekki búin að útfæra það alveg. Við ætlum að skoða hvort það sé ekki hægt að koma til móts við þá gagnrýni sem við höfum sætt vegna þessa og það er almennur skilningur fyrir því innan meirihlutans,“ segir Sóley.

Hún segir að allar breytingatillögur verði lagðar fram við seinni umræðu borgarráðs um fjárhagsáætlunina á fimmtudaginn næstkomandi. Áætlunin verði svo endanlega afgreidd fimm dögum síðar.

„Þetta mun því allt liggja fyrir fljótlega,“ segir Sóley.

Í fjárhagsáætlun meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata er gert ráð fyrir að 7,5 prósenta lækkuninni verði mætt með öðrum aðgerðum sem eiga að gera leikskólunum kleift að kaupa mat og hráefni á lægra verði. Kjartan segir þá hagræðingu ekki í hendi.

„Sú hagræðing, sem vonandi næst, á aftur á móti að fara til leikskólastjóranna svo þeir geti bætt hráefnið enn frekar svo maturinn í leikskólunum fullnægi opinberum manneldismarkmiðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×