Erlent

Meirihluti Skota andvígur sjálfstæði

Randver Kári Randversson skrifar
Alex Salmond, æðsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar og formaður Skoska þjóðarflokksins.
Alex Salmond, æðsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar og formaður Skoska þjóðarflokksins. Vísir/AP
Útlit er fyrir að Skotar muni hafna því að lýsa yfir sjálfstæði frá Bretlandi þegar gengið verður til atkvæðis í næsta mánuði. Alex Salmond og Alistair Darling munu takast á í kappræðum í næstu viku.

Í samantekt breska dagblaðsins Independent, þar sem eru teknar saman niðurstöður sex síðustu skoðanakannana sem birtar hafa verið, kemur fram að 57% Skota eru andvígir sjálfstæði en 43% fylgjandi.Lítil hreyfing virðist vera á fylginu en meðaltalsfylgið hefur aðeins sveiflast um 1 prósentustig frá frá því í marsmánuði.

Kosningabaráttan mun hefjast á ný á þriðjudag eftir að hlé var gert á henni vegna Samveldisleikanna sem fram fara í Glasgow. Þá munu Alex Salmond, æðsti ráðherra skosku heimastjórnarinnar og Alistair Darling, talsmaður sambandssinna, takast á í sjónvarpskappræðum.

Ljóst er að brattann er að sækja fyrir Salmond og aðra sjálfstæðissinna en þær 70 skoðanakannanir sem birtar hafa verið frá því í febrúar hafa allar, að einni undanskilinni, sýnt að meirihluti Skota er andvígur því að lýsa yfir sjálfstæði frá Bretlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×