Innlent

Meiri músagangur en gengur og gerist

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Kettir landsins hafa líklega í nógu að snúast við að handsama mýs vegna mikils músagangs víða um land.
Kettir landsins hafa líklega í nógu að snúast við að handsama mýs vegna mikils músagangs víða um land. nordicphotos/afp
Músagangur hefur verið meira vandamál en venjulega hér á landi undanfarnar vikur. Útköllum meindýraeyðis hefur fjölgað um 300 prósent á milli ára. Getgátur hafa verið á sveimi um að aukinn músagangur stafi af eldgosinu í Holuhrauni og að mýs leiti mikið inn í hús til að forðast gasmengun.

„Ég veit ekki með tengslin en ég tel það mjög vafasamt að aukinn músagangur stafi af gasmengun. Stofninn getur verið stærri núna út af mildari vetrum og er það líkleg ástæða fyrir því að þetta er meira vandamál núna en áður,“ segir Jón Már Halldórsson, meindýraeyðir á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi.

Hann segir að útköllum hafi fjölgað talsvert að undanförnu á milli ára. „Ég er nú að sinna á bilinu tíu til tuttugu útköllum á viku, sem er um það bil 300 prósenta aukning á milli ára ef ég reikna þetta gróflega,“ segir Jón Már.

Jón Halldórsson, meindýraeyðir.vísir/valli
Spurður út í hvort gasmengunin geti haft áhrif á stofninn segir Jón Már mengunina hafa sín áhrif. „Það hafa fundist dauð dýr á suðausturhluta landsins eins og á Höfn í Hornfirði, þar sem mengunin hefur verið hvað mest. Þessar eitruðu lofttegundir eru auðvitað skaðlegar fyrir dýrin en þær ættu ekki að hafa áhrif á höfuðborgarsvæðinu,“ útskýrir Jón Már. 

Á höfuðborgarsvæðinu hefur að undanförnu mest verið um músagang í Garðabæ, á Álftanesi og í Hafnarfirði. Jón Már segir skýringuna á því líklega vera nándina við hraunið.

Guðmundur Ögmundsson, aðstoðarmaður þjóðgarðsvarðar í Skaftafelli, segist ekki finna fyrir auknum músagangi í þjóðgarðinum. „Það er auðvitað einhver músagangur hérna á haustin en ekkert í okkar í húsum. Það hefur ekki verið nein gasmengun hjá okkur og tel ég mengunina ekki vera ástæðu fyrir auknum músagangi,“ segir Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×