Enski boltinn

Meiri hjálp á leiðinni fyrir Gylfa og félaga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson með 
Tom Carroll þegar þeir voru báðir hjá Tottenham.
Gylfi Þór Sigurðsson með Tom Carroll þegar þeir voru báðir hjá Tottenham. Vísir/Getty
Tom Carroll verður væntanlega orðinn leikmaður Swansea City áður en dagurinn er liðinn en velska liðið er að ganga frá kaupum á miðjumanninum frá Tottenham.

Carroll fer í læknisskoðun hjá Swansea í dag og það er fátt sem kemur í veg fyrir að hann verði orðinn nýjast liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Swansea.

Tom Carroll hefur spilað áður með Swansea en þá kom hann á láni og lék allt 2014-15 tímabilið með velska liðinu.

BBC hefur heimildir fyrir því að kaupverðið sé í kringum 4,5 milljónir punda eða um 620 milljónir íslenskra króna.

Tom Carroll kom upp í gegnum unglingastarfið hjá Tottenham en hefur aðeins komið við sögu í þremur leikjum Tottenham á leiktíðinni.

Swansea City er í vondum málum í neðsta sæti deildarinnar og tapaði 4-0 á móti Arsenal um helgina. Liðið hefur skipt tvisvar um knattspyrnustjóra á leiktíðinni og þarf nauðsynlega meiri hjálp.

Tom Carroll verður annar leikmaðurinn sem Swansea City fær til sína í janúarglugganum en liðið hafði áður náð í Luciano Narsingh frá PSV Eindhoven. Hvort að þessir tveir leikmenn séu nægur liðstyrkur fyrir liðið er aftur á móti önnur saga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×