Innlent

Meiri hagnaður hjá WOW en Icelandair

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Afkoma WOW air batnar á milli ára.
Afkoma WOW air batnar á milli ára. Fréttablaðið/Vilhelm
Rekstrarhagnaður WOW air án afskrifta á fyrsta ársfjórðungi (EBITDA) var 680 milljónir króna og jókst um milljarð milli ára, samkvæmt tilkynningu frá fyrirtækinu.

Rekstrarhagnaðurinn er meiri hjá WOW en hjá Icelandair Group.

Samkvæmt afkomutilkynningu var rekstrarhagnaður Icelandair Group rétt undir 140 milljónum króna, en var neikvæður um 281 milljón króna í fyrra.

Hagnaður WOW air eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi var 400 milljónir króna samanborið við 280 milljóna tap á fyrsta ársfjórðungi árið 2015. Tap Icelandair Group eftir skatta á fyrsta fjórðungi var 2,1 milljarður en var 1,8 milljarðar í fyrra.

Skúli Mogensen, forstjóri WOW, er ánægður með afkomuna. „Við höfum vaxið hratt og það er ánægjulegt að sjá hversu vel okkur hefur tekist að ná frábærri nýtingu yfir vetrarmánuðina þrátt fyrir meira en tvöföldun á framboði,“ segir hann. Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, er líka sáttur og segir að árið fari ágætlega af stað. „Fyrsti fjórðungur ársins er jafnan þungur í rekstri þar sem mikið af kostnaði er gjaldfærður á fjórðungnum sem tengist auknu umfangi á háönn og er það því ánægjulegt að sjá að EBITDA 1. ársfjórðungs er jákvæð í fyrsta sinn síðan árið 2010,“ segir forstjórinn.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 29. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×