Innlent

Meiri áhersla á rétt foreldra en barna

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Það er mikil áfall fyrir alla fjölskyldumeðlimi þegar foreldrar ákveða að skilja. Margrét segir mikilvægt fyrir börnin að samskipti milli foreldra séu góð eftir skilnað.
Það er mikil áfall fyrir alla fjölskyldumeðlimi þegar foreldrar ákveða að skilja. Margrét segir mikilvægt fyrir börnin að samskipti milli foreldra séu góð eftir skilnað. NORDICPHOTOS/GETTY
„Það hefur stundum verið meiri áhersla á rétt foreldra en rétt barna við skilnað. Það er mikilvægt að fyrirkomulag um búsetu sé ákveðið út frá þörfum barnsins,“ segir Margrét Bárðardóttir sálfræðingur, sem verður fundarstjóri á málþinginu Börn og skilnaðir, sem haldið verður í Norræna húsinu á fimmtudag.

Á málþinginu verður rætt um aðstæður barna við skilnað, öryggi og tengsl, mikilvægi foreldrafærni beggja foreldra, skipta búsetu og fleira sem tengist skilnaði.

Margrét bendir á að í dag sé orðið algengt að foreldrar skipti umgengni við barnið, viku og viku. Það sé þó aðferð sem henti alls ekki öllum börnum. „Það hefur ekki verið nógu mikið inni í umræðunni að taka þurfi tillit til aldurs barnsins þegar búseta er skipulögð í framhaldi af skilnaði. Mörgum okkar þykir orðið alltof algengt að það sé nánast sjálfkrafa fyrirkomulag vika og vika,“ segir Margrét.

„Ef við skoðum rannsóknir um öryggi og tengsl barna þá er mjög mikilvægt að það sé tekið mið af aldri barnsins í þessu fyrirkomulagi. Slíkt fyrirkomulag getur verið í góðu lagi fyrir eldri börn en fyrir yngri börnin er mikilvægt að laga búsetuskiptingu að þroska barnsins og hafa þá frekar styttri heimsóknir hjá öðru foreldrinu. Lítið barn, kannski 1-3 ára, þolir ekki vel viku aðskilnað frá foreldri. Það er mjög mikilvægt að foreldrar komi sér saman um hvers konar fyrirkomulag hentar hverju aldurs- og þroskastigi. Skapgerð barnsins er einnig mikilvæg, tengsl við foreldra fyrir skilnað og svo framvegis.“

Margrét segir það lykilatriði varðandi velferð barna eftir skilnað að samskipti foreldra sín á milli og við barnið séu góð. „Við vitum að allar rannsóknir ber að sama brunni hvað það varðar að góð samskipti eftir skilnað eru það sem skiptir mestu máli varðandi líðan barna og aðlögun ,“ segir hún.

„Börn búa líka yfir alveg sérstakri aðlögunarhæfni en rannsóknir segja okkur að börn geti aðlagast skilnaði vel en að það sé algjört lykilatriði að vel sé staðið að skilnaðinum; að breytingar séu hafðar í lágmarki, að hugað sé að góðri foreldrafærni beggja foreldra og að foreldrar geti talað saman eins og manneskjur. Þetta eru mikilvægar breytur þegar skoðað er hvað hefur áhrif á velfarnað barna eftir skilnað.“

Málþingið hefst klukkan 16 á fimmtudag og stendur til 18.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×