Innlent

Meira fjármagn þarf í velferðarmálin

Linda Blöndal skrifar
Björk Vilhelmsdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar sagði í fréttum Stöðvar tvö í kvöld að ný skýrsla umboðsmanns borgarbúa um félagslega þjónustu borgarinnar byggi á upplýsingum frá einungis litlu broti af þeim sem þiggi aðstoð. Alls eru skjólstæðingar velferðarsviðs borgarinnar 20 þúsund árlega en umboðsmaður hafi rætt við 160 manns. Björk segir að þeir sem leiti til umboðsmanns séu einmitt þeir sem telja sig ekki hafa fengið góða eða réttmæta þjónustu en tala þurfi við fleiri notendur til að fá betri mynd af þjónustunni. Velferðarráð hafi lengi bent á að verja þurfi meira fé í málaflokkinn.

Í skýrslu umboðsmanns sem kynnt var í fyrradag kom fram að notendur upplifi tortryggni af hálfu starfsmanna velferðarsviðsins, mistök séu þögguð niður, einnig að innri átök séu á velferðarsviðinu og samskipta- og stjórnendavandi sem bitni á þjónustunni. Fólk fái ekki aðgang að sjálfsögðum gögnum um mál þess. Miðstýring sé of mikil og umsækjendur þjónustunnar upplifi niðurlægjandi framkomu og fordóma gagnvart sér. Þjónustan snýr meðal annars að barnavernd, heimahjúkrun, fötluðum, hjúkrunarheimilum, húsnæðis- og búsetuúrræðum, félagsþjónustu og ferðaþjónustu. 

Velferðarmálin þenjast út

Velferðarsviðið hefur þanist út frá hruni. Heildarútgjöld sviðsins voru tæpir 22 milljarðar í fyrra miðað við 9 milljarða árið 2007. Fjöldi stöðugilda fór úr 865 árið 2007 í 1536 árið 2013. Starfsstöðum fjölgaði úr 50 árið 2007 í 120 árið 2013. Þjónusta við fatlaða og heimahjúkrun bættist við verkefni velferðarsviðsins á þessum tíma.



Eftirlit brást ekki

Hið pólitíska velferðarráð hefur eftirlit með þjónustunni. Björk hafnar því að eftirlitið hafi brugðist en leggur áherslu á að fjármagnið hafi verið sett í þjónustuhlutann en minnst í að bæta þekkingu innan sviðsins sem þurfi að gera. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×