Innlent

Meintir smyglarar munu sitja lengur í gæsluvarðhaldi

Samúel Karl Ólason skrifar

Gæsluvarðhald þriggja manna sem grunaðir eru um að reyna að smygla miklu magni fíkniefna með Norrænu hefur verið framlengt til 22. desember. Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness vegna málsins nú í dag.

Um er að ræða tvo Íslendinga og einn Hollending en auk þeirra þriggja hefur fjórði maðurinn einnig setið í gæsluvarðhaldi. Sá er frá Hollandi og hann er með greindarskerðingu og andlega fötlun.

Sjá einnig: Greindarskerti Hollendingurinn mótmælti ekki gæsluvarðhaldi

Í dómum hæstaréttar kemur fram að í bíl sem mennirnir fluttu til landsins 22. september hafi fundist 19,5 kíló af amfetamíni og rúmlega 2,5 kíló af kókaíni. Þá fannst umslag með 15.600 evrum, eða rúmar tvær milljónir króna, í annarri bifreið. Þar að auki fannst farsími sem eingöngu var notaður til dulkóðaðra samskipta.

Um er að ræða þrjá dóma sem lesa má hér, hér og hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×