Erlent

Meintir nýnasistar handteknir í Þýskalandi: Taldir hafa áformað um hryðjuverk

nína hjördís þorkelsdóttir skrifar
Mennirnir eru taldir tengjast hryðjuverkasamtökunum OSS.
Mennirnir eru taldir tengjast hryðjuverkasamtökunum OSS. vísir/epa
Þýska lögreglan hefur handtekið tvo menn í kjölfar þess að 155 kíló af sprengiefnum fundust í bænum Lauterecken í suðausturhluta landsins í síðustu viku.

Hinir grunuðu hafa verið bendlaðir við hryðjuverkasamtök nýnasista en annar þeirra hafði jafnframt búið til heimatilbúna sprengju með mynd af hakakrossinum. Mennirnir eru 18 og 24 ára gamlir og þýskir að uppruna.

Áróður nýnasista krotaður á vegg í Þýskalandi.vísir/epa
Lögreglan fann sprengiefnin á heimili í Lauterecken þann 7. janúar og voru hús í grenndinni rýmd í kjölfarið. Tókst lögreglunni að flytja sprengiefnið á brott áfallalaust.

Tvíeykið var fyrst handtekið í desember en mennirnir voru grunaðir um áform um hryðjuverk. Þeim var hins vegar sleppt.

Nú hefur rannsóknarlögreglan hafið rannsókn á því hvort mennirnir kunni að tengjast samtökunum OSS en þau eru róttæk öfga-hægrisamtök sem hafa meðal annars skipulagt hryðjuverk á flóttamannabúðir og moskur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×