Innlent

Meint svindl stúdentsefna á þýskuprófi: Átta af níu nemendum hafa snúið sér til ráðuneytisins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Menntaskólinn við Sund
Menntaskólinn við Sund Vísir/stefán
Átta af þeim níu nemendum Menntaskólans við Sund sem sakaðir eru um að hafa svindlað á stúdentsprófinu í þýsku fyrr í mánuðinum hafa snúið sér til mennta- og menningarmálaráðuneytisins vegna málsins. Samkvæmt heimildum Vísis vilja sumir þeirra meina að alls engin tilraun hafi verið gerð til þess að svindla. Már Vilhjálmsson, skólastjóri MS, þarf að svara erindi frá ráðuneytinu í síðasta lagi á morgun.

„Það er ótrúlegur tími sem fer í þetta,“ sagði Már þegar blaðamaður náði af honum tali í eftirmiðdaginn til að forvitnast um stöðu máls. Öllum nemendunum níu voru boðnir tveir kostir sem áttu að gefa þeim færi á að útskrifast í næsta mánuði. 

Már segir nemendur svo sannarlega eiga rétt á því að leita til ráðuneytisins. Hann þurfi að svara erindi frá ráðuneytinu þar sem óskað er svara við spurningum á morgun. Í kjölfarið muni ráðuneytið taka afstöðu til málanna.

Fullyrða að ekkert svindl hafi átt sér stað

Hið meinta svindl nemenda fólst að sögn Más í því að gögn voru falin í orðabók sem þeim var heimilt að taka með sér í prófið. Var nemendum vikið úr prófinu, prófgögn gerð upptæk og nemendurnir sendir á fund skólastjóra. Þau fengu sjálfkrafa núll í prófinu.

Í kjölfarið var öllum nemendunum sent bréf þar sem þeim buðust tvær leiðir til þess að ljúka námi á þann hátt að ekkert stæði í vegi fyrir því að þau útskrifuðust og gætu hafið háskólanám í haust. 

Samkvæmt heimildum Vísis fullyrða nokkrir nemendurnir að engin brögð hafi verið í tafli. Til tíðinda heyrir að svo margir nemendur séu staðnir að svindli en Már skólastjóri sagði við Vísi á dögunum að ekki hafi komið upp svindl í útskriftarárgangi síðan árið 2002.

Málið er mjög viðkvæmt enda nemendurnir og fjölskyldur þeirra farin að sjá til hafnar. Veislur skipulagðar sem þurfi að blása af enda ljóst að nemendurnir níu munu ekki útskrifast ásamt öðrum í árgangnum við hátíðlega athöfn næstkomandi sunnudag.

Uppfært klukkan 17:30

Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að átta af níu nemendum hefðu ekki fallist á boð Más skólastjóra. Það mun ekki vera rétt. Reiknað er með því að flestir ef ekki allir nemendurnir þreyti þýskupróf í júní.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×