Innlent

Meint kynferðisbrot á Akureyri: Hæstiréttur staðfestir gæsluvarðhald

Bjarki Ármannsson skrifar
Lögreglan á Akureyri fer með rannsókn málsins.
Lögreglan á Akureyri fer með rannsókn málsins. Vísir/Pjetur
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir rúmlega þrítugum karlmanni sem grunaður er um að hafa brotið kynferðislega gegn tveimur átta ára drengjum. Hann mun sæta varðhaldi á Akureyri til 22. ágústs.

Í dómi héraðsdóms Norðurlands eystra, sem Hæstiréttur staðfesti, kemur meðal annars fram að sá grunaði á að hafa gefið sig á tal við drengina við heimili þeirra og þeir fylgt honum í íbúð hans. Þar á hann að hafa rassskellt báða drengina og brotið gegn þeim „með nánar lýstum hætti.“

Drengirnir gátu lýst manninum og nafngreint hann. Drengirnir hafa farið í læknisrannsókn en til stendur að færa að minnsta kosti annað þeirra til frekari rannsóknar.

Í dómi stendur að lögregla telji mikla hættu á að sá kærði spilli rannsókn gangi hann laus á meðan frumrannsókn stendur yfir, en líkt og greint hefur verið frá þekkja foreldrar drengjanna til mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×