Fótbolti

Meint hagræðing úrslita hleypur á milljónum dollara

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Viðureign Skenderbau og norður-írska liðsins Crusaders í forkeppni Meistaradeildar Evrópu er einn af þeim leikjum sem rannsóknin skoðaði sérstaklega. Albanirnir unnu fyrri leikinn 4-1 en töpuðu þeim seinni 3-2
Viðureign Skenderbau og norður-írska liðsins Crusaders í forkeppni Meistaradeildar Evrópu er einn af þeim leikjum sem rannsóknin skoðaði sérstaklega. Albanirnir unnu fyrri leikinn 4-1 en töpuðu þeim seinni 3-2 vísir/epa
Albanska liðið Skenderbeu á yfir höfði sér 10 ára bann frá öllum keppnum á vegum UEFA vegna „skipulagðar glæpastarfsemi“ í tengslum við hagræðingu úrslita og veðmálasvindl.

Rannsóknarniðurstöður tveggja siðferðisrannsóknarmanna UEFA voru birtar í skýrslu sem blaðamenn Guardian komu höndum á. UEFA hefur ekki birt skýrslna opinberlega en henni hefur verið lekið og dreift um Albaníu, sem og til breskra blaðamanna.

Skenderbeu var að berjast við fall í albönsku deildinni árið 2010 þegar Agim Zeqo var gerður að forseta félagsins. Liðið bjargaði sér frá falli og varð svo albanskur meistari næstu fimm ár í röð. Samkvæmt skýrslunni var það í nóvember 2010 sem fyrsti hagræddi leikurinn fór fram.

Mikill fjöldi fólks í Korce mótmælir skýrslu UEFA og mögulegu banni Skenderbeuvísir/epa
Albanska knattspyrnusambandið ákvað á síðasta ári að taka Albaníumeistaratitilinn fyrir tímabilið 2015-16 af félaginu og dæma 12 stig af félaginu tímabilið 2016-17 vegna hagræðingu úrslita. Þá var félagið dæmt í bann frá evrópskum keppnum tímabilið 2016-17 eftir að íþróttadómstóllinn CAS (Court of Arbitration for Sport) dæmdi félagið sekt um hagræðingu úrslita.

Sá dómur var fyrri hluti aðgerða gegn félaginu, skýrslan og nýafstaðin rannsókn er seinni hlutinn og lagði niðurstaða skýrslunnar til eins og áður segir að félagið verði dæmt í 10 ára bann, sem er fordæmalaust innan UEFA.

Eftir að forrit UEFA sem á að finna veðmálasvindl flaggaði 53 leiki hjá Skenderbeu vaknaði upp grunur. Leikirnir 53 voru allt frá vináttuleikjum í Evrópuleiki og áttu sér stað á tímabilinu nóvember 2010 til apríl 2016. Rannsóknin beindist þó aðallega að fjórum leikjum, tveim úr forkeppni Meistaradeildar Evrópu 2015-16 og tveim úr riðlakeppni Evrópudeildarinnar sama tímabil. Vegna þessa var Skenderbeu sett í bann. Nýja rannsóknin bætir við nýjum sönnunargögnum, meðal annars viðtölum við þjálfara.

Skenderbeu er sakað um að hafa „hagrætt úrslitum fótboltaleikja á stærðargráðu sem ekki hefur sést fyrr í fótboltaheiminum til þess að hagnast glæpsamlega á veðmálum.“ Samkvæmt skýrslunni er hagnaður félagsins talinn í milljónum bandaríkjadollara. Þá segir skýrslan að félagið hafi „enga virðingu fyrir heiðarleika leiksins.“ Félagið neitar öllum ásökunum.

Borgarstjórinn í Korce, heimabæ Skenderbeu, hefur skrifað bréf til UEFA og biðlað forseta sambandsins, Aleksander Ceferin, að „drepa ekki niður alla von heillar fótboltaþjóðar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×