Skoðun

Meingallað skref í ákvörðunarferli sæstrengs

Egill Benedikt Hreinsson skrifar
Fyrsta skoðun mín á skýrslu Kviku/Pöyry um sæstreng til Bretlands, er kynnt var af ráðherra 12. júlí, bendir til við fyrstu sýn að í nokkrum meginatriðum sé skýrslan meingölluð. Má þar nefna eftirfarandi tvö mikilvæg atriði, og auðvitað ekki hægt að útiloka að fleira komi í ljós við nánari skoðun. Skal þó tekið fram í upphafi að skýrslan er að mörgu leyti, þrátt fyrir þessa ágalla, mjög mikilvægt og gagnlegt innlegg í umræðuna og þann ákvarðana- og greiningarferil um sæstreng sem staðið hefur yfir undanfarin ár.

Ég nefni sem sagt hér eftirfarandi tvo mikilvæga ágalla:

Í fyrsta lagi að rekstrar- og viðgerðarkostnað sæstrengs skortir. Ekki verður séð að skýrslan geri ráð fyrir neinum slíkum kostnaði, og hvergi verður séð að getið sé kostnaðarforsendna á árlegum rekstrarkostnaði. Vissulega er fjallað um bilanir strengs og „uppitíma“ strengsins, þ. e. hversu lengi að meðaltali hann er í lagi, en ekki getið um til hvaða árlegs kostnaðar þessar bilanir muni leiða að meðaltali. Ljóst er að viðgerðarkostnaður í bilanatilfellum getur verið verulegur, svo sem þegar viðgerðaskip þarf að dvelja vikum saman við viðgerðir úti á rúmsjó eða bíða hagstæðs veðurs. Þetta atriði er grundvallaratriði slíkrar athugunar og óásættanlegt að slík skýrsla geri ekki grein fyrir því eða jafnvel sleppi í niðurstöðum, ef svo er. Hafi rekstrarkostnaður verið felldur inn í stofnkostnað eða hann birtur einhvers staðar í fylgiskjölum ber að taka slíkt saman og lýsa í meginskýrslu svo hún sé trúverðug.

Annað, meira tæknilegt, en þó afar mikilvægt atriði er túlkun íslenska kerfisins í tölvulíkani. Vitnað er í hermunarlíkanið Bid3 frá samstarfsaðilanum Pöyry án þess að séð verði að náð sé yfir íslenska raforkukerfið og sérstaka eiginleika þess á viðunandi hátt. Engin lýsing er gefin á hvernig rennsli, miðlanir, virkjanir og túrbínur kerfisins eru felldar inn í slíkt líkan. Skýrslan fjallar talsvert um veðurfar og breytileika þess, en veður hefur lítið að gera beint með rennsli fallvatna, sem stjórnast talsvert af snjóbráðnun á vorin og geymslu vatns í grunnvatnsgeymi.

Lykilatriði er að sérstæðir eiginleikar íslenska kerfisins komi fram í slíku líkani, einkum skammtímaáhrif með tilliti til samspils við breskan stundarmarkað, og einnig með það í huga að virkur stundarmarkaður er ekki til staðar á Íslandi (jafnvel þótt Landsnet gefi út sk. jöfnunarverð).

Vafasamt er að líkan eins og Bid3 sem sniðið er að almennum aðstæðum t.d. í Evrópu nái þarna að fókusera á samspil við breskan markað og að höndla íslenska kerfið með viðunandi hætti. Bid3 kann á hinn bóginn að ná vel utan um t.d. norska kerfið sem er líkt því íslenska, vegna þess að – sem hefur úrslitaáhrif – að þar er öflugur stundarmarkaður eða kauphöll. Fyrir þessu hefði þurft að gera grein í skýrslunni, en er ekki gert, og verður að meta það mjög óheppilegt eða jafnvel óásættanlegt. Gera þyrfti viðhlítandi grein fyrir þessu svo slík athugun sé trúverðug, en það er ekki gert.

Ráða ekki úrslitum

Skýrslan fjallar hins vegar að verulegu, og e.t.v. óeðlilega miklu leyti, um hagræn áhrif út á við, svo og umhverfisáhrif, regluverk og lagaumhverfi og án þess að hafa nauðsynlegan fókus á verkefnið sjálft, þ.e. strenginn. Þessi atriði ráða ekki úrslitum fyrr en grundvallararðgjöf og hagkvæmni verkefnisins sjálfs liggur fyrir með beitingu nægilegra góðra tóla og líkana. Þá þarf að taka með í reikninginn megin kostnaðarþætti, svo sem árlegan rekstrarkostnað, eins getið var, byggt á bestu mögulegu faglegu útreikningum og líkönum einnig á sviði raforkuverkfræði.

Þessar áherslur eru kannski skiljanlegar þegar skoðaður er faglegur bakgrunnur þeirra aðila er unnu að gerð skýrslunnar út frá íslenskum aðstæðum, en þar virðist áherslan vera á önnur atriði en fagþekkingu og reynslu á sviði vatnsorkukerfa og hönnunaratriðum hins sérstæða íslenska raforkukerfis (Hydro based power system engineering). Einkum á þetta við í því tilfelli þegar enginn stundarmarkaður er til staðar og leita verður inn í kerfið sjálft. Þótt sérfræðingar samstarfsaðilans Pöyry kunni að hafa þennan bakgrunn, sér þess ekki stað í skýrslunni, eins og áður er getið, varðandi líkanið Bid3. Auðvitað er íslenska kerfið alls ekki einsdæmi í heiminum og nefna má lönd eins og Chile og Brasilíu, og önnur í þeim heimshluta og víðar en síður Noreg sem hefur þróaðan stundarmarkað, eins og áður segir.

Það skal tekið fram að ég er ekki að gera lítið úr þeim mikilvægu þáttum sem skýrslan leggur hvað mesta áherslu á og gerir að því er virðist mjög vel (hagræn áhrif út á við, umhverfisáhrif, regluverk og lagaumhverfi) en fyrst og fremst skortir í skýrslunni umfjöllun og fókus á meginviðfangsefnið, strenginn sjálfan og samspil hans við sérstakt íslenskt kerfi og breskan markað á sitthvorum enda, og með öllum mikilvægum þáttum, þar með töldum rekstrarkostnaði strengsins.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. júlí




Skoðun

Sjá meira


×