Innlent

Meiðyrðamál Gunnars í Krossinum: Segir dóminn skilaboð um að útspil þöggunar dugi ekki lengur

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar

Fimm ummæli Pressunnar um mál Gunnars Þorsteinssonar í Krossinum voru dæmd ómerk í héraðsdómi í dag líkt og fram hefur komið á Vísi í dag.



Ásta Knútsdóttir og Sesselja Engilráð Barðdal sem fóru fyrir þeim hópi kvenna sem sakaði Gunnar um að hafa áreitt sig kynferðislega mættu í Héraðsdóm í dag til þess að hlýða á dómsuppkvaðningu.



Þær fögnuðu niðurstöðunni: „Mér finnst þetta sigur. Mér finnst þetta skýr skilaboð út í samfélagið. Mér finnst þetta skýr skilaboð til gerenda úti í samfélaginu að svona útspil þöggunnar dugar ekki lengur, að hóta fólki dómstólum fyrir að segja frá sannleikanum,“ sagði Ásta í samtali við Fréttastofu. Hún sagði þetta að auki skilaboð til þolenda sem hafa enn ekki þorað að stíga fram.

Málið var dómtekið þann 21. maí síðastliðinn.Fréttablaðið/GVA

Ekkert óeðlilegt við það að einhver orð séu dæmd dauð og ómerk

Eins og fram hefur komið krafðist Gunnar ómerkingar á alls tuttugu og einum ummælum Pressunnar og 15 milljóna í miskabætur. Fimm ummælanna voru dæmd ómerk og miskabótakröfu á hendur fyrrum ritstjóra Pressunnar, Steingrími Sævarr Ólafssyni og þeim Ástu og Sesselju var vísað frá.



„Við áttum í sjálfu sér von á að einhver af þessum tugum frétta að einhver orð yrðu dæmd dauð og ómerk. Tvær fréttir af öllum þessum fjölda, það er bara ekkert óeðlilegt við það,“ sagði Ásta. 

Frávísun miskabótakröfu kom lögmanni Gunnars á óvart

Lögmaður Gunnars, Einar Hugi Bjarnason, sagði alvarlegustu ummælin hafa verið dæmd ómerk og fagnaði niðurstöðunni. „Ég á auðvitað eftir að skoða forsendur dómsins en mér sýnist svona íf ljótu bragði að það hafi verið ómerkt fjölda ummæla og um það snerist auðvitað þetta mál. Þannig að það er mikill sigur fyrir minn umbjóðanda.“ „Þetta voru þessi alvarlegustu ummæli sem stefnt var út af í þessu máli og þau fengust ómerkt og það er mikill sigur.“ 



En hvað með þá niðurstöðu að miskabótakröfunni hefði verið vísað frá dómi?
 



„Ég á auðvitað eftir að kynna mér forsendur dómsins og kanna það hvaða rök eru á bakvið þá niðurstöðu að vísa þeirri kröfu frá dómi. En hún kemur á óvart.“

 „Ég gæti sótt mörg mál“

Gunnar var sjálfur á sama máli, sagði niðurstöðuna stórsigur þó að vissulega séu mörg fleiri ummæli um hann sem hann vilji láta dæma ómerk. „Ég gæti sótt mörg mál en ég verð bara að skoða huga minn og tala við mína fjölskyldu og sjá hvert framhaldið verður,“ sagði Gunnar spurður hvort hann hyggist sækja fleiri sambærileg mál. Miskabótakrafan var sett fram í táknrænum tilgangi að sögn Gunnars. „Við vitum að miskabætur í svona málum eru alltaf óverulegar. Við eigum eftir að fara yfir dóminn og niðurstöður og þá sjáum við hvað við gerum í framhaldi.“ 



Gunnar var aldrei sóttur til saka fyrir meint kynferðisbrot og hefur aldrei verið dæmdur. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×