Körfubolti

Meiddi sig við það að stíga á dómarann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Love.
Kevin Love. Vísir/Getty
Kevin Love, framherji Cleveland Cavaliers, hefur ekki hjálpað sínu liði mikið í undanförnum tveimur leikjum í Toronto þar sem Cleveland tapaði sínum fyrsta leikjum í úrslitakeppninni í ár.

Kevin Love hefur aðeins skorað samtals 13 stig í leikjunum tveimur sem Cleveland tapaði með 15 og 6 stigum. Love skoraði reyndar 10 stig í tapleiknum í nótt en hann klikkaði þá á 10 af 14 skotum sínum.

Kevin Love hefur aðeins nýtt 22 prósent skota sinna í leikjunum tveimur í Toronto (5 af 23) og þar hefur hann tekið meðal annars 29 færri fráköst en hinn lítt þekkti Bismack Biyombo í liði Toronto Raptors.

Það var þó atvik í þriðja leikhlutanum sem stendur upp úr í þessum leik því þá þurfti Kevin Love að fara meiddur af velli eftir að hafa stigið á fót eins dómarans.

Kevin Love meiddist þó meira á hné heldur en ökkla en það var enginn mótherji nálægt honum þegar kappinn steig aftur fyrir sig á fót dómarans.

„Ég held að Kyrie [Irving] hafi verið að skjóta undir lok þriðja leikhlutans. Ég steig á fót dómarans og það var ekki þægilegt. Ég verð aumur á morgun en það mun ekkert koma í veg fyrir að ég spili fimmta leikinn," sagði Kevin Love.

Kevin Love klikkaði á fimm af fyrstu sex þriggja stiga skotum sínum í leiknum en þau voru öll galopin. Hann spilaði best í þriðja leikhlutanum (5 stig og 5 fráköst í honum) en hann spilaði ekkert í lokaleikhlutanum, líklega vegna fyrrnefndra meiðsla.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×