Fótbolti

Mega ekki kaupa tyrkneska leikmenn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gokdeniz Karadeniz er einn af Tyrkjunum í rússneska boltanum en hann hefur verið hjá Rubin Kazan síðan 2008.
Gokdeniz Karadeniz er einn af Tyrkjunum í rússneska boltanum en hann hefur verið hjá Rubin Kazan síðan 2008. vísir/getty

Það er mikil spenna í samskiptum Rússa og Tyrkja síðan rússnesk orrustuflugvél var skotin niður af Tyrkjum. Þessi spenna hefur nú haft áhrif á fótboltann í Rússlandi.

Íþróttamálaráðherra Rússa, Vitaly Mutko, staðfestir að búið sé að banna rússneskum knattspyrnufélögum að versla tyrkneska leikmenn í vetrarfríinu sem er fram undan.

„Félögin eru búin að fá þessu tíðindi. Ekkert rússneskt lið má kaupa tyrkneskan leikmann í vetrarfríinu," sagði Mutko.

Þessar aðgerðir hafa þó ekki áhrif á þá tyrknesku leikmenn sem þegar eru að spila í deildinni.

„Þeir verða ekki hérna til frambúðar en á meðan þeir eru með samning mega þeir vera hérna," sagði Mutko.

Íþróttamálaráðherrann hefur einnig mælst til þess að rússnesk félög fari ekki í æfingaferðir til Tyrklands í fríinu. Flest stærstu félög Rússlands hafa staðfest að þau muni fara eftir þessum fyrirmælum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×