Erlent

Mega byrja að vinna tíu ára gömul

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Samkvæmt nýjum lögum í Bólivíu mega börn tíu ára og eldri fara út á vinnumarkað, með samþykki foreldra þeirra og gegn því að þau stundi nám. Varaforseti landsins, Alvaro Garcia Linera, skrifaði undir lög þess efnis síðastliðinn fimmtudag og er Bólívía því fyrsta landið í heiminum til þess að samþykkja slík lög.

Fátækt í Bólivíu er mikil, ein sú mesta í Suður-Ameríku, og segja stjórnvöld þarlendis lög sem þessi nauðsynleg til að koma landinu úr þessari miklu fátækt. Þarna fái fjölskyldur inn aukatekjur sem geti hjálpað til við að draga úr þeim fjárhagslegu byrðum sem stór hluti íbúa Bólivíu þarf að horfast í augu við. Mikið sé um barnaþrælkun þar í landi og að með þessu sé hægt að tryggja öryggi og réttindi barnanna.

Talið er að um ein milljón barna á aldrinum fimm til sautján ára séu á vinnumarkaði þar í landi. Þau séu því um fimmtán prósent af öllu vinnuafli.

Lögin brjóta í bága við sáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem segir að börn þurfi að vera fjórtán ára gömul til þess að mega fara út á vinnumarkað. Lögin hafa því verið harðlega gagnrýnd af Alþjóðavinnumálastofnun (ILO) sem vinnur meðal annars að því að uppræta barnaþrælkun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×