Innlent

Meðferðarátak vegna lifrarbólgu C einsdæmi á heimsvísu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurður Ólafsson, læknir á Landspítalanum.
Sigurður Ólafsson, læknir á Landspítalanum. vísir/stefán
Sigurður Ólafsson, umsjónarlæknir lifrarlækninga á Landspítala, segir að það þekkist hvergi annars staðar í veröldinni að öllum þeim sem séu með lifrarbólgu C sé boðin viðlíka meðferð við sjúkdómnum og stefnt er að hér á landi á næstu þremur árum. Um einsdæmi er því að ræða í heiminum.

„Það sem við þekkjum annars staðar frá er að meðferð með þessum lyfjum hefur verið takmörkuð við þá sjúklinga sem eru komnir með umtalsverðar lifrarskemmdir,“ segir Sigurður í samtali við Vísi.

Áþekkt verkefni er hafið í Georgíu en Sigurður segir það í raun ekki sambærilegt við það átak sem farið verður í hér þar sem vandamálið sé mun stærra þar og inniviðir heilbrigðisþjónustu ekki jafn góðir og hér.

Átak á borð við þetta ekki raunhæft fyrr en nú

Meðferðarátakið hefur verið í undirbúningi í töluverðan tíma.

„Hugmyndir um þessa nálgun, það er að segja svona meðferðarátak, hafa verið á sveimi í nokkur ár. Það hefur hins vegar ekki verið raunhæft þar til nú þar sem lyfin hafa haft svo miklar aukaverkanir í för með sér að það hefur ekki verið hægt að meðhöndla mjög breiðan hóp,“ segir Sigurður.

Talið er að á milli 800 til 1000 manns séu með lifrarbólgu hér á landi og er stefnt að því að bjóða þeim öllum meðferðina, sjúklingum að kostnaðarlausu.

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra.vísir/pjetur
Mikill ávinningur til lengri tíma litið

„Við viljum ná til sem flestra á fyrstu tveimur árunum og meðhöndla alla sjúklingana á þremur árum. Það mikilvægasta í þessu er auðvitað sá ávinningur sem er í þessu fyrir hvern og einn sjúkling sem er með lifrarbólgu C. Með lyfjameðferð sem eyðir veirunni batna lífsgæðin og hún kemur í veg fyrir myndun skorpulifrar og lifrarfrumukrabbameins.“

Sigurður segir að til lengri tíma sé ávinningur mikill enda er vonast til þess að meðferðarátakið leiði til færri tilfella af skorpulifur, lifrarkrabbameini og lifrarígræðslu.

Lyfjafyrirtækið Gilead leggur lyfið til en læknar á Landspítalanum munu rannsaka virkni lyfsins. Þá samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í gær að leggja 150 milljónir króna árlega næstu þrjú ár til meðferðarátaksins svo standi megi straum af blóðrannsóknum og annarri þjónustu sem tengist meðferðinni.

Meiriháttar forvarnar-og lýðheilsuverkefni

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segir átakið gott dæmi um það hvað íslenskt heilbrigðiskerfi og starfsmenn þess eru megnugir og hverju hægt er að koma til leiðar ef hugsað er út fyrir boxið.

„Hér er um meiriháttar forvarnar- og lýðheilsuverkefni að ræða enda felst í þessu mikill ábati fyrir þjóðfélagið og auðvitað þá 800 til 1000 sjúklinga sem nú glíma við lifrarbólgu C,“ segir Kristján.

Þá segir hann átakið gott dæmi samstarf þar sem báðir aðilar hafa mikinn hag af.

„Það er hagur Íslendinga að þessir sjúklingar losni við sjúkdóminn og við getum lækkað tíðni hans í framtíðinni, og jafnvel útrýmt honum. Svo er það hagur Landspítalans að geta nýtt sér rannsóknarniðurstöður vegna verkefnisins.“


Tengdar fréttir

„Flottustu fréttir sem ég hef fengið lengi“

Fanney Björk Ásbjörnsdóttir sem barist hefur ötullega fyrir því að fá lífsnauðsynleg lyf við lifrarbólgu C var klökk þegar Vísir náði tali af henni í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×