Skoðun

Meðferð dýra til manneldis óverjandi

Benjamin Sigurgeirsson skrifar
Til þess að viðhalda meintum lífsgæðum, halda uppi hefðum eða vegna vanafestu mannsins þurfa ótal ómennsk dýr að lifa við óviðunandi aðstæður sem fela í sér óþarfa þjáningar og sársauka.

Fólk tekur því sem sjálfsögðum hlut að borða hold og allskyns afurðir ómennskra dýra á hverjum degi, oft á dag. Flestir gera þetta án þess að veita því nokkra umhugsun við hvaða aðstæður þessi ómennsku dýr hafa þurft að lifa við til þess að koma til dæmis eggjum, mjólkurvörum og/eða afkvæmum sínum, til okkar í búðarhillurnar. Afkvæmum sem hafa mörg hver þurft að þola kvalir og sársauka á sinni stuttu, ónáttúrulegu ævi.

Af kauphegðun fólks má ætla að það taki því sem gefnu að meðferðin á þessum dýrum sé ásættanleg og að dýrin hljóti vernd gegn hverskyns misþyrmingum í gegnum strangt regluverk og eftirlit. Aðrir trúa því ef til vill að ómennsk dýr séu ekki nægu skyni gædd til þess að þjást, að minnsta kosti ekki á sambærilegan hátt og við mennirnir. Enn aðrir kæra sig ekki hót um hvort ómennsk dýr finni til eða ekki og telja manninn einfaldlega æðri að verðleikum í samanburði við önnur dýr. Dýr sem þó hafa hlotið þau örlög að þrífast á plánetunni Jörð samhliða okkur manninum.

Eru önnur dýr skyni gædd að því marki að þau verðskuldi einhvern rétt? Hafa þessi dýr einhverra hagsmuna að gæta og ef svo er ber okkur þá siðferðisleg skylda til að leggja okkar af mörkum til að sjá til þess að þessara hagsmuna sé gætt?

Er núverandi regluverk í verksmiðjubúskap viðunandi til þess að verja réttindi þeirra ómennsku dýra sem þar dvelja?

Í þessari grein verður leitast við svara að þessum spurningum og reynt að færa rök fyrir því að meðferð ómennskra dýra til manneldis er í flestum tilvikum óverjandi. Einnig verður rætt hvernig róttækar breytingar í matarvenjum mannsins geta haft afgerandi jákvæðar afleiðingar fyrir jörðina og alla jarðarbúa.

Hagsmunir ómennskra dýra

Ómennsk dýr, sér í lagi fuglar og spendýr, hafa þróuð taugakerfi ekki ósvipuð þeim sem við mennirnir höfum. Þessi taugakerfi hafa gegnt lykilhlutverki í þróunarsögunni við að hjálpa tegundum að lifa af; forða þeim frá aðstæðum sem gætu valdið þjáningu, sársauka og dauða og beina þeim þess í stað að því sem er þægilegt, veldur vellíðan og eykur lífslíkur.

Einnig eru fyrir hendi ótal atferlisrannsóknir sem sýna að ómennsk dýr bregðast við sársauka á sambærilegan hátt og mannfólk. Fólk sem á eða hefur átt gæludýr velkist ekki í vafa um að dýrið finnur fyrir sársauka lendi það í óhappi eða slysi. Það er í raun hafið yfir allan vafa að ómennsk dýr geta fundið fyrir sársauka og þar af leiðandi geti þau einnig þjáðst.

Ef við tökum því sem góðu og gildu að ómennsk dýr finni sársauka og geti þjáðst þá er sjálfgefið að þau hafa hagsmuna að gæta. Hverjir sem aðrir hagsmunir ómennskra dýra kunna að vera þá eru grunnhagsmunir þeirra að finna ekki sársauka né þjást á annan hátt. Við getum einnig gerst svo djörf að segja að dýrin hafi einnig hagsmuni af því að líða vel og finna fyrir ánægju.

Gaukshreiðrið

Hugtakið goggunarröð, sem mannfólkið samsamar gjarnan við sínar eigin gjörðir, á uppruna sinn að rekja til atferlis hænsna. Hænsn eru miklar félagsverur og við fullnægjandi aðstæður þá þróa hænsnin með sér goggunarröð þar sem einstaklingarnir í hópnum þekkja hvorn annan og eru meðvitaðir um stöðu sína innan hópsins. Til að slíkt fyrirkomulag geti átt sér stað er talið að fjöldi fugla í hóp megi ekki vera fleiri en 90.

Í dæmigerðu nútímakjúklingabúi eru mörg þúsund fuglar inn í einu og sama rýminu, margir fuglar á sama fermetra.

Við slíkar aðstæður eiga fuglarnir ekki möguleika á að greina hvorn annan í sundur og enginn hefur stöðu í goggunarröðinni. Þetta veldur oft því að hænsnin fara að gogga í hvort annað í ringulreið þar sem enginn finnur sig í neinu hlutverki. Til að reyna að koma í veg fyrir þessa óreiðukenndu goggun hafa sumir stjórnendur fuglabúa tekið upp á því að brenna gogginn af fuglunum.

Hænsn eru fuglar sem hafa fylgt mannkyninu í mörg þúsund ár en ólíkt svo mörgum öðrum fuglum þá heyrir það til undantekninga að nokkurt hænsn fái að lifa lífi sem á nokkurn hátt gæti talist þess virði að lifa.

Án þess að geta sett sig fullkomlega í spor fugla á borð við hænsn þá er ekki erfitt að sjá að það þjónar ekki hagsmunum hænsna að maðurinn framleiði þau í ónáttúrulegu magni með því að láta þau lifa í stóru rými með mörg þúsund öðrum hænsnum.

Hænsn hafa enga hagsmuna að gæta að goggurinn þeirra sé brenndur af þeim. Hagsmunir hænsna eru ekki fólgnir í því að fá að fara aldrei út. Jafnvel þótt starfsmenn kjúklingabúa myndu leggja sig alla fram þá gætu þeir ekki undir nokkrum kringumstæðum séð fyrir hagsmunum fuglanna á viðunandi hátt. Til þess eru fuglarnir of margir. Til þess eru starfsmennirnir of fáir.

Engar perlur, bara svín

Svín eru af sumum talin vera ein gáfuðustu dýr jarðarinnar. Rétt eins og hundar geta lært ýmis hegðunarmynstur frá manninum þá geta svín leyst ýmsar þrautir og lært að fylgja skipunum. Ólíkt hundum hinsvegar, þá eru afar fá svín sem fá að njóta þess að lifa sínu einstaka lífi. Í þau örfáu skipti, sem tækifæri er gefið, verður ekki um villst að svín geta lifað mjög þýðingarmiklu lífi, ef ekki bara fyrir sig sjálf þá líka fyrir aðra í umhverfi sínu.

Það er ekkert sem gefur til kynna að svín séu með taktísk plön til þess að ná yfirráðum yfir jörðinni. Eins er ekkert sem réttlætir þá meðferð sem svín hljóta upp til hópa af manna völdum; þar sem gylltur eru frjóvgaðar reglulega, valdar áfram í þeim tilgangi að ná fram gylltum sem framleiða sem flesta grísi; þar sem eistun á ungum göltum eru fjarlægð í þeim tilgangi að ná fram bragðbetra dýrakjöti; þar sem halar grísa eru klipptir af til þess að sporna við innbyrðis bitum á milla svínanna: þar sem enginn skilur neitt og enginn veit hvað er í gangi og hræðslan ein ræður ríkjum.

Móðurmjólkin

Að vera í þeim sporum að þurfa að sinna brenglaðri eftirspurn mannskepnunar eftir mjólkurvörum er án efa eitt vanvirtasta hlutverk nokkurrar lífveru á jörðinni. Til allrar óhamingju fyrir kýr þá eru þær misnotaðar til þess að sinna nákvæmlega þessu hlutverki.

Til þess að halda kúnum mjólkandi þarf að frjóvga þær reglulega, oftar en ekki með gervifrjóvgun. Hverri frjóvgun fylgir óhjákvæmilega fæðing kálfs.

Ef þú fæðist sem karlkyns kálfur er þér að öllum líkindum sýnd sú miskunn að vera tekinn af lífi eftir nokkurra vikna líf við lítt öfundsverðar aðstæður. Ef þú fæðist sem kvenkyns kálfur getur þú átt yfir höfði þér mun skelfilegri örlög, svipuð örlög og mamma þín þurfti að ganga í gegnum. Og amma þín. Og mömmur þeirra og ömmur þeirra.

Ef þú fæðist sem kvenkyns kálfur þá þegar þú hefur náð aldri þá ertu frjóvguð til þess að þú getir framleitt kúamjólk til manneldis.

Frjóvgun hefur þær afleiðingar að þú fæðir afkvæmi. Afkvæmi sem þú færð aldrei að næra, afkvæmi sem þú færð aldrei að umgnagast. Með slíkt framboð af mjólkuframleiðandi dýrum þá kemur að því að, eftir fjölmargar frjóvganir og jafnmargar fæðingar, að geta þín til að framleiða kúamjólk til manneldis fjarar út, og önnur yngri dýr koma í þinn stað.

Kúakjöt er oft notað í hakk og sem fóður fyrir ómennsk dýr þannig að leiða má líkum að þjónustu þinni fyrir mannfólkið ljúki með ferð í sláturhúsið. Núna ertu orðin hakk. Takk.

Lömbin þagna

Þegar það kemur að dýrum sem eru ræktuð til manneldis þá eru líklega fá sem lifa að jafnaði við frelsi líkt og íslensk lömb. Miðað við önnur dýr, líkt og svín og hænsn, sem aldrei fá að ganga frjáls utandyra þá eru lömb og kindur í öfundsverðri stöðu og það væri óskandi að hægt væri að koma fram við önnur dýr til manneldis á sambærilegan hátt.

Þrátt fyrir þennan ljósa punkt í tilveru kinda og lamba í samanburði við önnur dýr þá eru grundvallarhagsmunir þeirra engu að síður virtir að vettugi með það að markmiði að gæta léttvægum hagsmunum okkar mannfólksins. Lítum á málið berum augum.

Á ári hverju er slátrað yfir 500.000 sauðfjár á Íslandi. Þetta er svo mikið magn að þrátt fyrir mikla kjötneyslu Íslendinga þá þarf oft að farga mörgum tonnum af þessu kjöti. Til að viðhalda þessari óþarfa slátrun eyðir íslenska ríkið milljörðum í formi niðurgreiðslna til bænda. Í ofanálag þá hefur þessi óeðlilega stóri sauðfjárstofn slæmar afleiðingar fyrir gróður á beitilandi kindanna.

Svo er kaldur veruleikinn að lömb fæðast yfirleitt á vorin og er svo strax slátrað á haustin. Þannig að þessi tilveruréttur þeirra, þó svo að hann sé kannski bærilegur, er ónáttúrulega stuttur. Þegar lömbum er slátrað hafa þau aðeins fengið að lifa nokkra mánuði af ævi sem gæti undir náttúrulegum kringumstæðum náð yfir tíu ár.

Reyndar er það samnefnari með nær allri neyslu mannsins á holdi ómennskra dýra að hún kemur oftast verst niður á ungviði dýra sem strax frá fæðingu áttu aldrei neinn möguleika.

Tækifæri í breytingum

Hvaða áhrif hefði það svo ef fólk myndi gagngert minnka neyslu á ómennskum dýrum og afurðum þeirra? Fyrir það fyrsta þá myndi það fækka þeim dýrum sem myndu annars þurfa lifa verðlausu lífi og það myndi stuðla að aukinni meðvitund á mannúðlegri meðferð á ómennskum dýrum.

Einnig er ekki svo fjarstæðukennt að ætla að heilsa og holdafar landsmanna myndi njóta góðs af slíkum breytingum. Offita íslensku þjóðarinnar hefur aukist gríðarlega seinusta áratuginn og er gróflega áætlað að nú séu rúmlega 20% landsmanna yfir offitu mörkum, eitthvað sem er varhugavert og ekki til fyrirmyndar.

Í skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (e. World Health Organization (WHO)) er skýrt tekið fram að offita og of hár líkamsþyngdarstuðull (e. body mass index (BMI)) er tengd hjartasjúkdómum og krabbameini. Þar er einnig sterklega mælt með mikilli neyslu á grænmeti og ávöxtum sem úrræði til að sporna við þessum kvillum. Breyttar neysluvenjur eru því til þess fallnar að hafa bein áhrif á heilsu okkar sem og að minnka álag á heilbrigðiskerfið.

Íslenska ríkið ver nú milljörðum króna í formi styrkveitinga til bænda. Gróflega fara um 4 milljarðar til sauðfjárbænda og 6 milljarðar til kúabænda en á sama tíma fer um hálfur milljarður til grænmetisbænda. Með því að minnka þessa styrki en á sama tíma auka styrkveitingu til grænmetisbænda mætti framleiða meira, fjölbreyttara og ódýrara grænmeti á Íslandi sem og að nýta þessa fjármuni í önnur arðbærari og þarfari verkefni.

Lítum svo á önnur áhugaverð atriði. Orkan, landsvæðið, fóðrið og vatnið sem þarf til þess að framleiða dýrakjöt er miklu meiri í samanburði við framleiðslu á plöntum og öðru góðgæti utan dýraríkisins. Ef dýraframleiðsla yrði minnkuð samhliða aukinni plöntuframleiðslu væri hægt að framleiða meiri mat fyrir minni pening, á minna landi, með minni sóun á landgæðum og náttúrulegum auðlindum.

Þannig má með sanni segja að með því að borða færri dýr og fleiri plöntur erum við að skapa tækifæri til þess að rækta og framleiða mat fyrir þurfandi mannfólk sem núna býr við gífurlega fátækt á jörðinni.

Eins er hlýnun jarðar af mannavöldum staðreynd.

Aðeins örlítil prósenta vísindamanna velkist í nokkrum vafa um hlutverk mannsins í hlýnun jarðar og hinar neikvæðu afleiðingar sem þessi þróun hefur í för með sér. Samkvæmt skýrslu frá Sameinuðu Þjóðunum þá er dýraframleiðsla ábyrg fyrir meiri losun gróðurhúsalofttegunda heldur en allar samgöngur (bílar, lestar, flugvélar, skip, o.fl.) mannsins samanlagt. Þannig að ef þú telur það þess virði að sporna við hlýnun jarðar af mannavöldum þá hefur sú einfalda breyting að neyta meiri plantna á kostnað ómennskra dýra möguleika að hafa afgerandi áhrif.

Án þess að draga úr mikilvægi þess að versla lífrænt, nota taupoka og taubleijur, endurvinna og margt fleira sem telst ásættanleg hegðun umhverfissinna þá fölna þessi atriði í samanburði við þau umhverfisvænu áhrif sem felast í því einu að kjósa, eftir fremsta megni, að sniðganga dýraríkið þegar það kemur að neysluvenjum.

Misbeiting valds

Flestir hafa skoðun á hvernig farið er með dýr; margir eiga gæludýr sem þeir veita ást og alúð líkt og þeir myndu veita fjölskyldumeðlimi. Aðrir kalla sig kannski almennt dýravin þá sjaldan sem þeir velta því fyrir sér, eða fordæma meðferð á dýrum í dýra- og skemmtigörðum. En yfirleitt þá er fólk ekki mikið að ígrunda siðferðislega afstöðu sína gagnvart dýrum. Samt sem áður þá kæra sig fæstir um að misþyrma dýrum og myndu sjálfviljugir ekki koma fram við dýr eins og gert er í nær öllum þróuðum nútímasamfélögum.

Hvers vegna ætti fólk þá að kæra sig um að borga öðrum fyrir að misþyrma dýrum í þeirra nafni. Hvers vegna trúir fólk því að gæludýr og/eða mörg villt dýr eigi rétt á að lifa með reisn en ekki kindur, kýr, hænur og svín? Hvar liggur munurinn? Í grunninn liggur munurinn í því að nákvæmlega þessi dýr bogna og mótast undir valdi mannsins. Þetta eru dýrin sem eru berskjölduð fyrir mætti mannsins til að láta kúga sig og stjórna sér.

Þessi dýr veita minnsta mótspyrnu. Þetta eru dýrin sem uppfylltu þau skilyrði til þess að vera valin og ræktuð í gegnum ótal kynslóðir, af manninum og fyrir manninn, til þess eins að hljóta þau viðurstyggilegu örlög sem þau nú lifa og deyja við.

Hættum að misbeita valdi. Stöðvum ofbeldi. Verum til fyrirmyndar. Borðum fleiri plöntur og færri dýr.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×