Innlent

Með sýningaratriði á mannréttindasafni

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
„Safnið verður í samtali við samfélagið,“ segir Ásta Olga Magnúsdóttir.
„Safnið verður í samtali við samfélagið,“ segir Ásta Olga Magnúsdóttir. Mynd/The Canadian Museum For Human Rights
Íslenska fyrirtækið Gagarín var fengið til að setja upp þrjú gagnvirk sýningaratriði á mannréttindasafni í Winnipeg í Kanada sem opnað var nú um helgina. Safnið, The Canadian Museum for Human Rights, er fyrsta safnið í heiminum sem eingöngu er helgað mannréttindum.

Ásta olga magnúsdóttir
„Þar er búið að skapa einstakan stað sem fólk mun koma á og læra og fá innblástur til að vinna að mannréttindamálum um ókomna framtíð,“ segir Ásta Olga Magnúsdóttir, verkefnisstjóri hjá Gagarín sem sérhæfir sig í hönnun á gagnvirkum lausnum fyrir söfn og sýningar.

Fyrirtækið sendi tillögur í útboð vegna sýningaratriðanna og hefur unnið að verkefninu undanfarin þrjú ár. „Það var mikill heiður að hafa verið valin og ótrúlega gaman að taka þátt í svona stóru verkefni. Þetta hefur verið langt ferli og margir ólíkir aðilar þurftu að koma að verkefninu. Þessar þrjár sýningarlausnir sem við erum með eru unnar í samstarfi við safnið í tengslum við þemu sem það er með. Við erum meðal annars með gagnvirkar sögur þar sem fjallað er um fólk sem hefur unnið að mannréttindamálum. Annað atriði er mjög falleg lifandi myndlíking um stjórnarskrá Kanada sem setur alveg tóninn fyrir eitt af ellefu galleríum safnsins og þriðja atriðið tengist mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna en þar erum við að vinna með hreyfiskynjun.“

Skjáskot af einu af sýningaratriðum Gagaríns.
Ásta segir safnið eiga að vera í miklum tengslum við það sem er að gerast á líðandi stundu. „Þetta verður safn sem verður í samtali við samfélagið. Það setur Winnipeg á kortið sem mannréttindaborg og það verður staður þar sem fólk kemur aftur og aftur.

Gagarín hefur lagt mikla vinnu í að kynna starfsemi og lausnir víða erlendis og meðal verkefna þess núna er hönnun á gagnvirkum kynningum um alla þjóðgarða Noregs sem settar verða upp í 15 upplýsingamiðstöðvum fyrir ferðamenn. Jafnframt tók fyrirtækið að sér í samstarfi við sænsku arkitektastofuna Codesign að hanna gagnvirkar sýningarlausnir fyrir nýja olíusýningu í Vísinda- og tæknisafninu í Ósló sem opnuð var á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×