Lífið

Með starfsframa í tveimur heimsálfum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Greta Salome fyrir utan skipið Disney Magic þegar það var við höfn í Reykjavík.
Greta Salome fyrir utan skipið Disney Magic þegar það var við höfn í Reykjavík.
Það vefst ekki fyrir Gretu Salóme Stefánsdóttur, tónlistarkonu, að sinna starfsframa í tveimur heimsálfum.

Hún kom til landsins um helgina með lúxusskipinu Disney Magic þar sem hún hefur samið tónlist, leikstýrt, sungið og spilað í eigin sýningu The Greta Salóme show um nokkra mánaða skeið og troðið upp með eigið efni fyrir mörg þúsund manns í hverri viku. Skipið hefur tvisvar komið til landsins og er nú á leið til Akureyrar.

Tónlistarkonan var á síðasta ári á siglingu í fjóra mánuði með skemmtiferðaskipinu Disney Dream, sem er eitt stærsta skemmtiferðarskip samsteypunar og fékk í framhaldinu svokallaðan ,,headliner” samning um borð í Disney Magic.

Hún er með eigið stúdíó um borð þar sem hún semur alla tónlistina fyrir sýninguna og fyrir nýja plötu sem hún hefur verið að vinna að. Hún hefur til aðstoðar fyrir sýninguna leikstjóra, dansara, búningahönnuði frá Disney. Platan hennar „In the Silence” sem seld er um borð hefur einnig selst upp fjórum sinnum.



Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Greta keppti fyrir Íslands hönd í Eurovision árið 2012.
„Þetta er eins og að reka fyrirtæki í tveimur heimsálfum en mér finnst mikil áskorun að halda svona mörgum boltum á lofti í einu. Ég sem, leikstýri, syng og spila á sýningunni um borð. Samhliða því er ég að semja efni fyrir nýju plötuna með  Daða Birgissyni úr hljómsveitinni Mono Town. Það er mikil reynsla fyrir mig að halda utanum starfssemina bæði um borð í skipinu og upptökum á plötunni.“

Disney-Frozen á Hofi

„Ég kem heim í haust til þess að setja upp sýningu í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri en ég ætla ásamt Þorvaldi Bjarna Þorvaldssyni, tónlistarstjóra Menningarfélags Norðurlands að setja upp glæsilega tónlistarsýningu í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri.

Þar ætla ég að leika með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á tónleikum sem nefnast Disney-Frozen. Ég er mjög spennt fyrir því verkefni,” segir Greta Salóme.  

Hlakka til að koma heim

Eins og alla sjómenn sem verið hafa lengi úti þá hlakkar Greta til þess að koma heim og eyða meiri tíma með fjölskyldunni. ,,Það reynir á að vera fjarri fjölskyldunni svona lengi og ég hlakka óskaplega mikið til þess að koma heim og takast á við næstu verkefni, “ segir Greta Salóme að lokum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×