Innlent

Með smáforrit að vopni í baráttunni gegn mansali

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Snorri Birgisson, sér­fræðing­ur í rann­sókn­um man­sals­mála, segir vændi á Íslandi hafa færst af hótelum og yfir í leiguíbúðir. Smáforritið TraffickCam hafi því ekki enn komið að notum.
Snorri Birgisson, sér­fræðing­ur í rann­sókn­um man­sals­mála, segir vændi á Íslandi hafa færst af hótelum og yfir í leiguíbúðir. Smáforritið TraffickCam hafi því ekki enn komið að notum. Vísir/Vilhelm
Sérstakt smáforrit, sem notað hefur verið í baráttu gegn mansali og vændi, hefur vakið mikla athygli um allan heim undanfarna mánuði. Stöðuuppfærsla íslenskrar stúlku um forritið kom því á kortið á meðal íslenskra notenda í gær. Sér­fræðing­ur í rann­sókn­um man­sals­mála fagnar tilvist smáforritsins en segir það ekki hafa mikið notagildi í mansalsmálum á Íslandi.



Sara Mansour vakti athygli á TraffickCam-forritinu í gær. Hún brautskráðist frá Menntaskólanum í Hamrahlíð í ár.Sara Mansour
Sara Mansour, nýstúdent úr Menntaskólanum við Hamrahlíð, vakti athygli á smáforritinu TraffickCam á Facebook-síðu sinni í gær. Forritið, sem hægt er að hlaða ókeypis niður í farsíma, gerir notendum kleift að setja myndir af hótelherbergjum inn í gagnagrunn. Lögregla og saksóknarar geta svo nýtt sér myndirnar við að bera kennsl á fórnarlömb vændis og mansals.

„Auglýsingar á þess háttar starfsemi eða barnaklámi eru endranær teknar á hótelum svo myndirnar sem við gefum lögreglunni gegnum TraffickCam getur hjálpað henni að finna samsvörun,“ segir í stöðuuppfærslu Söru í gær.

Hefur hjálpað mjög í baráttunni gegn barnaklámi og vændi

TraffickCam var hleypt af stokkunum árið 2015. Að framleiðslu forritsins standa samtökin Exchange Initiative sem helga sig baráttunni gegn kynlífsþrælkun barna.

Sara er stödd í Barcelona um þessar mundir en í samtali við Vísi segist hún hafa notast við TraffickCam í um eitt ár. Hún sendi fyrst inn myndir í gagnagrunninn þegar hún ferðaðist til Frakklands á síðasta ári.

„Þetta hefur hjálpað mjög í baráttunni gegn barnaklámi og vændi í útlöndum og það væri frábært ef það væri hægt að nota þetta hér á Íslandi,“ segir Sara.

TraffickCam greinir myndir, sem sendar eru inn í gagnagrunninn, í minni hluta. Þannig geta lögreglumenn notast við einkenni á myndunum á borð við mynstur á gólfteppum, málverk og landslag út um glugga til að greina staðsetningar myndanna.

Notendur TraffickCam geta hlaðið myndum af hótelherbergjum inn í gagnagrunn sem lögregla getur notað við rannsóknir á vændismálum.Skjáskot
Forritið fagnaðarefni en hefur ekki verið notað á Íslandi

Í gær bárust fréttir af því að ríkisstjórn Íslands mæti ekki þeim lágmarksskilyrðum sem þarf til að berjast gegn mansali hér á landi. Engir hafa verið sakfelldir fyrir mansal eða ákærðir á síðustu sex árum, samkvæmt árlegri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins um mansal á heimsvísu.

Snorri Birgisson, rann­sókn­ar­lög­reglumaður hjá lög­reglu­stjór­an­um á höfuðborg­ar­svæðinu og sér­fræðing­ur í rann­sókn­um man­sals­mála, segir appið fagnaðarefni en það hafi ekki verið notað á Íslandi.

„Við vitum af þessu appi og höfum skoðað þetta en við getum líka sagt það að vændi á Íslandi hefur færst út af hótelunum, þannig að þetta er kannski ekki alveg að nýtast, þannig,“ segir Snorri.

„Við höfum skoðað þetta forrit en þau hótel sem hafa verið nýtt hér undir vændi, við höfum yfirleitt vitað hvar þau eru.“

Hann segir appið þó kærkomna viðbót við baráttuna gegn mansali og vændi, sérstaklega í útlöndum þar sem vændi fer enn mikið fram á hótelum og gistiheimilum.

Frekari upplýsingar um TraffickCam er hægt að nálgast á heimasíðu forritsins. Þá má hlaða TraffickCam niður hér en það hefur bæði verið hannað fyrir iOS- og Android-stýrikerfi.


Tengdar fréttir

Hvorki saksótt né dæmt í mansalsmálum

Sprenging hefur orðið í vændi hér á landi á síðustu mánuðum að sögn lögreglu og Ísland er annars flokks þegar kemur að baráttunni gegn mansali í heiminum samkvæmt nýrri skýrslu. Sextán mansalsmál voru rannsökuð hér á landi í fyrra en ekki hefur verið saksótt eða dæmt í slíkum málum síðastliðin sex ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×