Innlent

Aníta með miða aðra leið á munaðarleysingjahæli

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Aníta G. Axelsdóttir með sex ljónsungum og  hundi á munaðarleysingjahæli fyrir villt dýr í Suður-Afríku.
Aníta G. Axelsdóttir með sex ljónsungum og hundi á munaðarleysingjahæli fyrir villt dýr í Suður-Afríku.
„Ég er svo spennt að ég veit ekki hvernig ég á að haga mér,“ segir Aníta G. Axelsdóttir, sem í dag leggur upp í sólarhrings ferðalag frá Íslandi til Kenía til starfa sem sjálfboðaliði á nýju heimili fyrir munaðarlaus börn.

Stöð 2 greindi frá því í mars í fyrra að Anna Þóra Baldursdóttir og sænsk vinkona hennar hygðust opna heimili fyrir munaðarlaus börn í Naíróbí í Kenía. Anna Þóra hafði þá dvalist ítrekað ytra sem sjálfboðaliði á slíku heimili eftir að hún fór fyrst út 2013.

Að sögn Anítu er starfsleyfi sem beðið hefur verið eftir nú loks í höfn. Heimilið verði fyrst um sinn starfrækt í leiguhúsnæði. Ætlunin sé síðan að byggja nýtt hús frá grunni. Regla sé að tuttugu börn að lágmarki séu á slíkum heimilum og þeim fjölda verði haldið til að byrja með.

„Fyrsta barnið kom fyrir þremur dögum. Það er þriggja daga gömul stelpa," segir Aníta sem kveðst afar spennt að komast til Kenía. Sjálf hafi hún ekki verið þar áður en hins vegar dvalist í einn mánuð í Suður-Afríku á árinu 2012. Þá hafi hún verið sjálfboðaliði á munaðarleysingjahæli fyrir villt dýr. „En það var rándýrt, bara sjálfboðaliðastarfið kostaði 500 þúsund krónur - fyrir utan flug og mat og annað."

Aníta, sem starfað hefur á Vinakoti sem þjónustar börn með fjölþættan vanda, kveðst hafa beðið eftir tækifæri til að komast utan aftur.

Reksturinn í Kenía segir Aníta byggjast á styrktaraðilum, meðal annars í gegnum styrktarfélag hér á Íslandi. Hún kveðst afar þakklát fyrirtækjum sem lagt hafi verkefninu lið. Nefnir hún til dæmis O. Johnson & Kaaber, Rekstrarvörur, Íslensk-Ameríska og DHL.

Miði Anítu gildir aðeins aðra leið og hún veit ekki hvenær hún snýr aftur. „Ég kem út þegar þær eru að byrja með þetta og ég held ég muni eiga erfitt með að fara frá börnunum sem koma þarna inn eiginlega á fyrsta degi síns lífs." gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×