Lífið

Með leikinn í farteskinu

Magnús Guðmundsson skrifar
"Þetta er þroskasaga vegna þess að myndin fjallar um þroskaferli hjá mér og vonandi líka strákunum,“ segir Ólafur Stefánsson en í byrjun febrúar verður heimildarmyndin Óli prik fumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum.
"Þetta er þroskasaga vegna þess að myndin fjallar um þroskaferli hjá mér og vonandi líka strákunum,“ segir Ólafur Stefánsson en í byrjun febrúar verður heimildarmyndin Óli prik fumsýnd í íslenskum kvikmyndahúsum. vísir/stefán
Handboltahetjan Ólafur Stefánsson og eiginkona hans Kristín Soffía Þorsteinsdóttir búa í fallegu húsi í Þingholtunum með börnin sín Helgu Soffíu, Einar Þorstein og Stefaníu.

Afrek Óla Stef þarf ekki að tíunda en það er ekki aðeins fyrir afrek hans í handboltanum sem hann á stað í hjörtum margra landa sinni. Það er líka fyrir það að vera litríkur og skemmtilegur karakter, maður sem hugsar út fyrir kassann og hefur í raun brotið niður þá staðalmynd sem margir hafa af afreksfólki í íþróttum. „Píp“ segir eflaust meira en mörg orð.

Óli tekst á við verkefnin með jákvæðni í farteskinu, með skýr markmið í kollinum, hugsar um heimspeki, menntun og alla möguleika í hverri stöðu. Hann hugsar um lífið í leiknum og leikinn í lífinu.

„Það voru þrír heimar; boltinn, bækurnar og fjölskyldan. Kristínu finnst að ég eigi að vera oftar í fjölskyldulífinu."vísir/stefán
Mikil gleði að sjá hana blómstra

Eftir áralangan feril eru Óli og fjölskyldan komin heim. Í mörg ár snerist lífið um handbolta með íþróttamanninn Óla Stef sem fyrirtæki fjölskyldunnar. Líkamlegt og andlegt ástand hans skipti öllu máli til þess að hann gæti skilað sínu sem atvinnumaður í íþróttinni.

„Við þessar aðstæður verður maður miðlægur, líklega frekar narsissískur. En Kristín hefur rekið þetta fyrirtæki með mér. Þetta var meira svona Óli Stef og fjölskylda og ég er henni þakklátur fyrir hvernig við höfum unnið þetta saman. Í dag er það mikil gleði fyrir mig að sjá hana blómstra í sínu.

Öllum á að líða þannig að hann eða hún geti orðið það sem þeim er ætlað. Til þess að það gangi upp eru fjölmargir þættir sem þurfa að vera í lagi. Í atvinnumennskunni hafði ég oft góðan tíma fyrir börnin ef ferðalögin eru undanskilin en hérna heima þarf maður að skipuleggja vikuna vel. Eiga góða vini, passa sig á áfengi og sykri, því þetta dót steikir á manni heilann, hreyfa sig reglulega og lesa frekar en að horfa á sjónvarp og eiga sínar kyrrðarstundir. Ef þetta gengur ekki og maður sinnir sér ekki almennilega getur orðið bratt niður.“

Langaði að sparka í hann!

Ólafur er áhugaverður einstaklingur og það sá Árni Sveinsson kvikmyndagerðarmaður sem frumsýnir í byrjun febrúar heimildarmyndina Óla prik. Árni fylgdi Óla eftir í starfi í heilt ár við tökur myndarinnar.

„Það var alveg steikt að samþykkja þetta,“ segir Óli og hristir kollinn við tilhugsunina. 

„Ég var nýr í starfi, á nýjum stað, að takast á við verkefni sem var ekki sambærilegt við neitt sem ég hafði gert áður. Að verða stjórnandi og samþykkja að vera með gaur á öxlinni í öllu þessu var dálítið klikkað. Ég sé samt alls ekki eftir þessu, það er ekki það. Málið er að ef maður hefur ekkert að fela þá er þetta í lagi. En auðvitað voru augnablik þar sem mig langaði til þess að sparka í Árna!

Það eru líka engar uppsettar senur í þessu, ekkert plat og við vildum forðast alla forsíðudramatík. Myndin er eiginlega gallhörð en ég hefði kannski sett aðrar senur inn og það hefði alveg mátt ritskoða sumt. Árni er ögrandi og ég óttaðist satt best að segja dálítið Í skóm drekans sem hann gerði á sínum tíma. Sú mynd er náttúrulega háðsheimildarmynd (mockumentary) en hvort Óli prik endar sem slík mynd – það verða aðrir að dæma um.“

Fjölskyldan í stuði
Hafði alltaf verið stjórnað

Árið sem tökur myndarinnar stóðu yfir var viðburðaríkt og í raun mikill skóli. Ólafur lagði keppnisskóna á hilluna og tókst á við nýjar áskoranir.

Hann tók við starfi aðalþjálfara hjá meistaraflokki Vals í handbolta og er þar með í fyrsta sinn kominn í stól stjórnandans.

„Málið með myndina er að hún átti alltaf að snúast um þessu umskipti. Árni kom til mín til Katar og þar kviknaði hugmyndin að því að filma þessa sögu um mig að taka við Val. Þetta er æskufélagið mitt og það fylgja þessu óneitanlega sterkar tilfinningar.

Eina senan sem ég sé eftir endurvarpar því eflaust. Þar er ég að missa mig á leikmennina inni í klefa í hálfleik, þó svo að ég hafi vitað manna best að ég var að gera óraunhæfar kröfur. En það er pressa í svona starfi og auðvelt að gleyma sér og þarna gleymdi ég mér og lét það bitna á strákunum. Það var ekki gott. Eftir þetta atvik hugsaði ég að þetta mætti ekki gerast aftur. Hugsaði mikið um hvers þetta starf krefst af manni.

Fyrir mann eins og mig sem hefur alltaf verið stjórnað eru það mikil umskipti að fara sjálfur í stjórnunarstöðu. Þess vegna er þetta þroskasaga. Og vonandi á það líka við um strákana en ekki bara mig því þetta snerist um okkur sem heild.“



Fannst ég vera að bregðast


Aðeins rétt rúmri viku áður en Íslandsmótið í handbolta hófst síðastliðið haust hætti Ólafur störfum sem þjálfari eða tók sér að minnsta kosti tímabundið leyfi. Fyrirtæki Ólafs krafðist þess að hann sinnti því í fullu starfi. En þessi ákvörðun var honum greinilega erfið.

„Þessi synd, að labba frá borði, var mér mjög erfið tilfinningalega. Ég gekk lengi með þetta í maganum – of lengi kannski en þetta var svo stór og erfið ákvörðun. Þegar ég tók við þessu starfi gaf ég ákveðnar væntingar, setti tón og það síðasta sem maður vill gera er að bregðast. Mér fannst ég vera að bregðast og það er erfitt. Þá skiptir öllu máli að það sem kemur sé nægilega gott til þess að réttlæta þessa ákvörðun og það á eftir að koma í ljós.“

Einar Þorsteinn, Stefanía og Helga Soffía eru flottir krakkar með hausinn fullan af góðum hugmyndum um bjarta og skemmtilega framtíð. Einar Þorsteinn og Stefanía eru í handboltanum en leiklistin á hug Helgu Soffíu. mynd/Tinna Stefánsdóttir
„Leikið og þér munuð finna“

„Það sem kemur í staðinn,“ eins og Ólafur segir, er í raun afsprengi áralangra pælinga og mikillar vinnu.

Ólafur hefur lengi hugsað mikið um menntun og hvernig við getum haldið áfram að bæta okkur og þroskast sem einstaklingar. Hér er á ferðinni forrit, tölvuleikur þar sem hugmyndin er að gefa notandanum raunverulegt tækifæri til þess að tengja saman það sem er verið að læra hverju sinni við sinn persónuleika og þau gildi sem hvert og eitt okkar stendur fyrir.

Grunninn að þessu verkefni er ekki síst að finna í því sem Ólafur og Þorvaldur Þorsteinsson heitinn unnu að á sínum tíma og minningin um Þorvald er honum greinilega dýrmæt.

„Þetta er í raun framhald af því sem við Þorvaldur vorum að gera. „Leikið og þér munuð finna,“ sagði Þorvaldur og þarna erum við að nota tæknina til þess að skerpa hugsunina í stað þess að láta hana hugsa fyrir okkur. Tengja saman texta, ímyndir og tilfinningar og víkka þannig reynsluheim okkar og auðvelda okkur bæði að læra og þroskast í skemmtilegum leik. Það á að vera leikur að læra og þroskast. Svo það er víst áfram stutt í leikinn í mínu lífi þótt það sé nú með öðrum hætti.

Það er gott að muna að við erum að taka óteljandi ákvarðanir á hverjum degi, stórar sem smáar og þær skipta allar máli í því sem við erum að fást við á lífsleiðinni. Í grunninn er þetta hugsað fyrir börn á aldrinum 6–12 ára en svo vonandi líka unglinga og foreldra. Því öll getum við vaxið og þroskast í leik.“

Alltaf að vinna og pæla

Nú er liðið á daginn og tekið að skyggja. Kristín og krakkarnir öll komin heim og það lifnar yfir heimilinu. Á hæðinni er bjart og opið á milli eldhússins og borðstofunnar og yfir í stofuna. Þetta er sérstaklega fallegt heimili og við Óli sitjum við borðstofuborðið en Kristín gengur beint til verks í eldhúsinu og byrjar að hafa til kvöldmatinn.

Kristín er opin, létt og skemmtileg og í ljósi þess hvað Ólafur er alltaf hugsi þá veltir maður því fyrir sér hvernig gangi að samræma fjölskyldulífið við alla þessa vinnu og allar þessar hugsanir. 

„Þetta voru alltaf þrír heimar,“ segir hann og heldur áfram að útskýra. „Boltinn, bækurnar og fjölskyldan. Kristínu finnst að ég eigi að vera oftar í fjölskyldulífinu. Ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að hætta að hugsa um það sem ég er að pæla hverju sinni. En við eigum mikið af góðum stundum. Ferðumst saman og gerum margt skemmtilegt.“

Kristín tekur heilshugar undir þetta enda greinilega gott og fallegt á milli þeirra hjóna. Þar með er komið að myndatöku og svo er Óli rokinn í sund með krökkunum. Það eru fáar stundir betri en þær sem er varið í Vesturbæjarlauginni á vetrarkvöldi.

Kristín naut þess að hafa svona mikinn tíma með börnunum þegar þau voru yngri.vísir/stefán
Lífið er málmsuða, hönnun, fjölskyldan og heimilið

Kristín var sjálf í handbolta á unglingsárum og er alin upp á handboltaheimili.

„Ég elska handbolta, hef alltaf gert. Það hefur komið sér ákaflega vel því það er erfitt að gera eitthvað sjálfur í þessum heimi afreksíþróttamannsins. Svo eftir að við fórum að eignast börn þá fannst mér mikilvægt að það væri allavegana annar pósturinn alltaf til staðar fyrir börnin. Ég sé ekki eftir neinu því það að fá að vera heima með börnunum, fylgjast með þeim vaxa og dafna hefur verið frábært. Þetta er tími sem kemur ekki aftur og mér þætti skelfilegt að horfa til þessa tíma með eftirsjá.“

Kristín er núna í námi við hönnunarbraut Iðnskólans í Hafnarfirði og það leynir sér ekki að hún nýtur þess að sinna sínum hugðarefnum. Heimili þeirra er líka einstaklega fallegt en þau gerðu umtalsverðar breytingar innanstokks eftir að þau keyptu húsið við heimkomuna.

„Húsið var sannkallað draumaverkefni sem féll fullkomlega að mínu áhugasviði. Ég náði að vera í námi á Spáni í tvö ár í leikmyndahönnun og það fannst mér alveg rosalega gaman. Mér hefur löngum þótt leikhúsheimurinn spennandi og í raun hefur hönnun alltaf höfðað sterklega til mín. Núna er ég í námi þar sem ég tekst á við allt mögulegt frá málmsuðu til fínlegri hönnunar og smíði og hver dagur er öðrum skemmtilegri.

Ísland hefur því komið mér skemmtilega á óvart eftir að við fluttum heim en eftir öll árin úti var ég dálítið hikandi. Það er einfaldlega lykilatriði að lifa í góðu nærsamfélagi, eiga góða vini og hafa skemmtilega hluti að takast á við.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×